„Lögregla sinnti þónokkrum málum sem tengdust ölvun og fólki í annarlegu ástandi. Tilkynnt var um nokkra minniháttar pústra í miðbænum. Þá var í nokkur skipti tilkynnt um hávaða í heimahúsum og frá skemmtistöðum,“ segir í Dagbók lögreglu
Eins og algengt virðist vera um helgar voru þónokkrir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Um hálf fjögur í nótt var ökumaður handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Að sögn lögreglu var hann mjög ósamvinnuþýður.
Lögreglunni bárust tilkynningar um tvö innbrot og eina tilraun til innbrots í Árbænum á milli miðnættis og klukkan þrjú í nótt.
„Tilraun til innbrots í hverfi 110. Húsráðandi vaknaði við skarkala og kom að manni sem var kominn hálfur inn um svalahurð á íbúð sinni. Maðurinn komst undan.“ Hann var þó handtekinn þegar þriðja tilkynningin barst lögreglu, grunaður um innbrotin þrjú.
Lögreglumenn urðu varir við eld í Elliðárdalnum en þá stóð vinnuskúr alelda. Tveir menn í annarlegu ástandi voru handteknir, grunaðir um íkveikju.