Illugi Jökulsson minnir Facebook-vini sína á þær hörmungar sem blasa við börnum í Úkraínustríðinu í hverri viku.
Fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson birti hryggðarmynd af fimm ára úkraínskri stúlku að nafni Polina, sem hefur hrakist undan árásum Rússlandshers, frá heimili sínu ásamt móður sinni. Upplýsir hann í leiðinni lesendur sína um að í þessari viku hafi 48 úkraínsk börn verið flutt með valdi frá Úkraínu til Belarús. „Þótt þessu stríði ljúki vonandi einhvern tíma mun það taka áratugi, já, heilu mannsævirnar, að græða sárin sem árás Rússa hefur valdið.“
Tugir þúsunda barna hafa verið flutt nauðug frá Úkraínu yfir til Rússlands og Belarús síðan innrás Rússa inn í Úkraínu hófst. Nýlega líkti Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu barnsránunum við þjóðarmorð.
Færslu Illuga má lesa hér:
„Bara í þessari viku voru 48 úkraínsk börn flutt með valdi frá Úkraínu til Belarús. Þótt þessu stríði ljúki vonandi einhvern tíma mun það taka áratugi, já, heilu mannsævirnar, að græða sárin sem árás Rússa hefur valdið. Hún Polína, fimm ára, á þessari mynd, hefur hrakist undan árásum Rússa frá heimili sínu í Kupyansk Vuzlova, ásamt mömmu sinni, en þær eru þó enn í Úkraínu. Myndina tók Lynsey Addario.“