Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram vantrauststillögu á Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra.
Tillagan er lögð fram til að bregðast við því sem fram kemur í áliti Umboðsmanns Alþingis um störf Matvælaráðherra, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ingu. Þar segir að ráðherrann hafi farið „út fyrir valdheimildir sínar og braut gegn stjórnarskrárvörðum réttindum fólks og lögmætisreglu.“
Í tilkynningunni eru fjórir punktar tilteknir um ástæðu vantrauststillögunnar:
- Reglugerðin hafði ekki nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar.
- Útgáfa reglugerðarinnar samrýmdist ekki kröfum um meðalhóf og réttmætar væntingar.
- Ráðherra braut gegn lögmætisregu og braut þar með gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um atvinnufrelsi.
- Með setningu inngripsmikillar reglugerðar án eðlilegs fyrirvara braut ráðherra gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Þá segir einnig í tilkynningunni að Svandís hafi líklegast bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu:
„Með setningu reglugerðar sem skorti viðhlítandi lagaheimild og án þess að gæta að meðalhófi, hefur ráðherrann vafalítið bakað ríkissjóði skaðabótaskyldu.“
Að lokum segir í tilkynningunni að ráðherra sem brjóti gegn lögum eigi að axla ábyrð.
„Sjálf lýsti ráðherrann því yfir að hún hefði ekki lagaheimild til að afturkalla veiðileyfið. Engu að síður setti hún reglugerð án fyrirvara sem kom í veg fyrir nýtingu leyfisins. Ráðherra sem brýtur gegn lögum, brýtur gegn stjórnarskrá, þarf að axla ábyrgð gjörða sinna. Flokkur fólksins krefst þess að hún víki þegar í stað.“
Hvorki náðist í Ingu Sæland né Svandísi Svavarsdóttur við gerð fréttarinnar.