Inga Sæland, þingkona og formaður Flokks fólksins, er öskureið vegna vörusvika SS. Í góðri trú segist hún hafa keypt sér poka af lambakótilettum en svikin hafi síðan komið í ljós þegar heim var komið.
Inga ritaði færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún sesgir frá reynslu sinni og leggur þar áherslu á að íslenskir neytendur berjist fyrir réttindum sínum:
„Hvort eru þetta framhryggjabitar eða kótelettur? Ég var í góðri trú og keypti þetta sem kótelettur, sjá ekki vörusvikin fyrr en ég tók upp úr pokanum. Ef við neytendur berjumst ekki fyrir réttindum okkar þá gerir það enginn fyrir okkur,“ segir Inga ákveðin.
Gunnar nokkur endurbirti færslu Ingu inni í fjölmennum hópi sauðfjárbænda á Facebook þar sem hann spyr:
„Hvað segið þið sauðfjárbændur um þetta – mistök?“
Í hópnum er hávær umræða um kjötpoka SS og vörusvikin sem Inga er svo sár útaf. Ásta nokkur er ein þeirra sem blandar sér í umræðuna og reynir að skýra þetta út: „Súpukjöt myndi ég nú halda, en hef oft fengið svona í poka. Orðið mikið af útlendingum í frystihúsum sem ekki hafa þekkingu og enginn leiðbeinir eru svör sem ég hef fengið,“ segir Ásta.
Gunna hvetur Ingu til að kvarta og skila vörunni. „Hún verður bara að skila þessu blessuð og lesa yfir hausamótunum á SS, þetta eru allavega ekki kótilettur, sama hvað maður sér vel eða illa,“ segir Gunna.