Kraumandi reiði er meðal ríkisstarfsmanna í dag vegna ákvörðunar Fjársýslu ríksins að greiða ekki laun fyrr en eftir Verslunarmannahelgina. Margir þurfa því að hætta við áform um að gera sér dagamun um helgina.
Ingþór Karl Eiríksson er fjársýslustjóri, efstur í skipuriti Fjársýslu ríksins, og ber því ábyrgð á framkomu sem margir kalla lúalega. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði Ingþór í embætti.
Fréttablaðið greinir frá ólgunni meðal ríkisstarfsmanna. Flestir virðast bera harm sinn í hljóði, enda tjá flestir ríkisstarfsmenn sig varlega á samfélagsmiðlum. Þó eru undantekningar frá því. Hvað sem því líður þá snertir þessi ákvörðun þúsundir Íslendinga.
Tilkynning sem birtist á vef Fjársýslunnar bætir svo gráu ofan á svart í huga margra. Óhætt er að segja að tilkynningin sé ekki líkleg til að lægja öldur. Hún hljóðar svo:
„Að gefnu tilefni minnum við á að laun skulu greidd fyrsta virka dag hvers mánaðar skv. 10.gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.
Þar sem 1. ágúst ber upp á frídag verslunarmanna er útborgunardagur launa þriðjudaginn 2. ágúst n.k.“