Í gær birti Vísir viðtal við fjölmiðlamanninn Frosta Logason þar sem farið er um víðan völl um undanfarin ár í lífi Frosta. Í viðtalinu ræðir Frosti meðal annars þá umfjöllun sem birtist í Stundinni (nú Heimildinni) árið 2022 en þar sakaði Edda Pétursdóttur, fyrrverandi kærasta Frosta, hann um að hafa beitt hana andlegu ofbeldi og hótað henni.
Í viðtalinu við Vísi gagnrýnir Frosti vinnubrögð Heimildarinnar en hann er á því að Margrét Marteinsdóttir, blaðamaður Heimildarinnar, hafi brotið siðareglur og ekki viljað fjalla um hans hlið á málinu.
„Blaðamaður sem gat fjallað um hlið fyrrverandi kærustu minnar og slengt öllu þar upp, hún gat ekki fjallað um hina hliðina. Þetta er auðvitað brot á siðareglum blaðamanna, að veita mér ekki þann rétt að segja mína hlið þegar á mig eru bornar mjög alvarlegar ásakanir, en ég nennti ekki að vera að fara að kæra til siðanefndar einhverja kollega mína og svona. En þetta voru vinnubrögðin og það er ofsalega ljótt og lýsir eiginlega bara hversu hræðilegt ástand var á samfélaginu öllu á þessum tíma,“ sagði Frosti um málið.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar, var ekki lengi að svara þessum ásökunum Frosta í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Ingibjörg greinir meðal annars frá því að blaðamaðurinn hafi verið í samskiptum við fleiri konur, sem ekki hafa komið fram yfir nafni, sem hafi lýst óviðeigandi samskiptum af hálfu Frosta. Því hafi blaðamaðurinn ákveðið, eftir að hafa hitt Frosta á fundi, að ekki væri rétt að birta viðtal við hann um málið að svo stöddu.
Hægt er að lesa alla færslu Ingibjargar um málið hér fyrir neðan.