Maðurinn sem er grunaður um að hafa stungið samfanga sinn á Litla-Hrauni í gær heitir Ingólfur Kjartansson og er fæddur árið 2002. Vísir greindi frá nafni mannsins í gær en fanginn sem varð fyrir árásinni er af albönskum uppruna og er sagður hafa slasast alvarlega. Er hann grunaður um að hafa átt þátt í skotárás í fjölbýlishúsi í Úlfarsárdal fyrir nokkrum vikum.
Ingólfur afplánar nú átta ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrir skotárás á mann í miðbæ Reykjavíkur í febrúar í fyrra. Í stuttu viðtali við DV fyrr á árinu sagðist Ingólfur ætla sér að snúa við blaðinu. „Hvað glæpi snertir er ég sestur í helgan stein,“ sagði hann í viðtalinu og stefndi á að snúa sér að tónlistinni. Þá gaf hann út rapplag með vini sínum, Gabriel Douane, en sá særðist í árásinni í Úlfarsárdal.
Ingólfur á að baki nokkurra ára langan glæpaferil þrátt fyrir ungan aldur en hann losnaði úr fangelsi í byrjun febrúar árið 2022 eftir að hafa setið inni fyrir nokkur rán. Þá herma heimildir Mannlífs að skotárásin í Úlfarsárdal og árásin í fangelsinu Litla-Hrauni tengist.