Sjónvarpsmaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson, best þekktur fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN, segir farir sínar ekki sléttar af viðskiptum við Icelandair á Facebook. Ingvi segist ávallt hafa kosið Icelandair fram yfir önnur flugfélög enda tengdur félaginu fjölskylduböndum.
Icelandair gæti verið að missa tryggan viðskiptavin, enda fer Ingvi Hrafn oft til Flórída í Bandaríkjunum. Á dögunum greindi hann frá því að hann væri líklega að fara þangað í hundraðasta skiptið.
Ingvi skrifar á Facebook: „Hef alltaf verið mikill Loftleiða/Icelandair maður enda tengdur félaginu fjölskylduböndum í meira en hálfa öld. Verð að segja eftir síðustu ferð vestur um haf, að einhverjir nýjir straumar eru á ferð, sem mér hugnast ekki alveg.“
Í athugasemd er hann spurður nánar út í þetta og því svarar Ingvi: „Veit það ekki, brottför og heimkoma á rampi, skammtað eitt glas af pepsi, nei ég er ekki að djóka sagði freyjan, bara einhvern veginn, ekki sami ramminn, 737, krömmí þröng á 8 klst flugi. Bara kannski áttræður, gamall þreyttur kall.“