Sunnudagur 22. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Innrás eða útrás?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað um stöðu Arion banka og íslenskra bankakerfið í fréttaskýringu Kjarnans.

Viðmælendur Kjarnans á fjármálamarkaði sögðu umræðu um íslenska bankakerfið nokkuð einsleita þessi misserin. Flestir ræddu um slakan rekstrargrunn og ofmönnun – eins og „þið blaðasnáparnir“, svo vitnað sé beint í einn viðmælandann – en of fáir ræddu um hvað væri fram undan. Sú sýn væri ekki spennandi fyrir íslenskt fjármálakerfi, að það geti ekki þjónustað útflutningshlið fjármálakerfisins af nægilegum metnaði. Þótt útrásarhugtakið væri ekki beint í tísku þá væri það samt spurning hvernig bankakerfið ætti að geta stutt við íslenskt efnahagslíf til framtíðar án góðra tenginga við alþjóðlega fjármálamarkaði. Staðan í dag er þannig að allt íslenska bankakerfið er með um 89 prósent eigna sinna í íslenskum eignum en ellefu prósent í erlendum.

Annar möguleiki er líka alveg fyrir hendi, og raunar farið að sjást glitta í hann. Það er að innreið tæknifyrirtækja inn á fjármálamarkaði muni verða verulega umfangsmikil á næstu misserum, og Ísland muni ekki geta undanskilið sig frá þessu.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, hefur sagt að bankinn hafi metnað til þess að efla enn frekar fjártækni sína, til að vera samkeppnishæfur á þessu sviði. Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn hafa einnig haft þessar áherslur.

En spurningarnar hvað þessa þróun varðar, eru mun frekar tengdar heildarmynd fjármálakerfisins á Íslandi og hvernig það muni þróast. Hvernig munu okkar kerfislægt mikilvægu bankar – og Arion banki þar meðtalinn – takast á við það þegar greiðslumiðlun opnast upp á gátt, tæknifyrirtæki fara að bjóða upp á þjónustu, eins og lán og nútímalega bankaþjónustu, þvert á landamæri. Það má líkja því sem nú á sér stað við hálfgerða innrás, í þessu samhengi. Lítið fjármálakerfi, sem styðst við eitt minnsta myntkerfi í heimi, gæti átt erfitt með að aðlagast þessum breytingum. Áherslur fyrirtækja eins og Amazon og Apple hafa birst neytendum á undanförnu ári, en bæði fyrirtækin hafa boðið sérstök greiðslukort og hafa farið beint inn á fjármálamarkað í Bandaríkjunum með þeim, og þannig komist inn í greiðslumatskerfi (Credit Score) fjármálageirans.

Flestar spár gera ráð fyrir að tæknirisarnir í heiminum muni fara hratt og örugglega inn á neytendamarkað með fjármálaþjónustu, og hefur Amazon nú þegar sýnt á spilin með innbyggðu afsláttarkerfi sínu fyrir alla korthafa Amazon-greiðslukorts. Líklega líður ekki á löngu þar til lán og tryggingar fara að bjóðast frá tæknifyrirtækjunum, enda eru þau með fulla vasa fjár og búa yfir ítarlegum gögnum um neytendur, sem hjálpar til við að greina áhættu.

Þrátt fyrir að þetta virðist langt í burtu, frá íslenskum veruleika, þá þarf það ekki að vera raunin. Innan fárra ára gætu tæknifyrirtækin hafið innreið á íhaldssaman fjármálamarkað af miklu meiri krafti en þau hafa nú þegar gert.

- Auglýsing -

Ítarlega er fjallað um málið á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Texti / Þórður Snær Júlíusson og Magnús Halldórsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -