Upptaka sem írska lögreglan Gadaí fann í mars 2019, bendir til þess að Jón Þröstur Jónsson, sem hvarf í Dyflinni rúmum mánuði áður, hafi ekki horfið fótgangandi, heldur hafi hann verið tekinn upp í bifreið.
Í þriðja þætti hlaðvarpsins Where is Jón? eða Hvar er Jón, sem er samstarfsverkefni RÚV og RTÉ í Írlandi, koma fram upplýsingar um myndbandsupptökur sem lögreglan fann mánuði eftir dularfullt hvarf Jóns Þrastar en þessar upplýsingar hafa ekki áður komið fram opinberlega.
Þegar upptakan fannst var fjölskylda Jóns Þrastar enn í Dyflinni og kallaði lögreglan hana á fund inn. Kom þar fram að upptakan væri úr eftirlitsmyndavél í strætisvagni en hann keyrði eftir götunni Swords Road og framhjá Highfield-spítalanum en Jón Þröstur sést í eftirlitsmyndavélum spítalans ganga framhjá Highfield klukkan 11:12, 9 febrúar 2019. Strætisvagninn keyrir síðan framhjá þremur mínútum seinna en þá er Jón horfinn.
Eina mögulega skýringin fyrir því að Jón sé horfinn af götunni þremur mínútum síðar, telur lögreglan vera þá að hann hafi stigið upp í bifreið. Sagði hún fjölskyldu Jóns Þrastar að ekki væri hægt að beygja inn á aðrar götur á svæðinu og þess vegna sé eina mögulega skýringin á hvarfi hans sú að hann hafi sest upp í bifreið og henni síðan ekið á brott.
Samkvæmt hlaðvarpsþættinum skráðu fjölskyldumeðlimir Jóns á sínum tíma upplýsingarnar sem fengust á fundi lögreglunnar, niður í skjal en þar héldu þau utan um allt sem viðkom málinu. Staðfesta þau minningar sínar af fundinum við dagskrárgerðarfólk hlaðvarpsins. Fram kemur í þættinum að ekki sé ljóst af hverju lögreglan hafi ekki greint frá þessum upplýsingum í fjölmiðlum á sínum tíma.
Að því er fram kemur í þáttunum er myndbandsupptakan gríðarlega mikilvæg vísbending um hvarf Jóns Þrastar. Hafi hann sest inn í bifreið þýði það að einhver veit eitthvað um ferðir Jóns og hugsanlega hvað varð um hann.