Hnefaleikakappinn Kolbeinn stefnir á heimsmeistaratitil.
Tilkynnt hefur verið um næsta bardaga hnefaleikamannsins Kolbeins Kristinssonar, oft kallaður Ísbjörninn, en hann fer fram 2. desember í Vín í Austurríki. Þar mun hann mæta hinum 36 ára Mirko Tintor en hann hefur tapað þremur seinustu bardögum sínum.
Kolbeinn er besti boxari í sögu Íslands en hann er taplaus í 14 bardögum og hefur hann rotað andstæðinga sína í átta af þessum 14 bardögum. „Ég er spenntur að fara aftur til Vínarborgar og skila frábærri frammistöðu og vonandi rothöggi. Ég ætla svo í kjölfarið að halda áfram að vinna mig í átt að því að verða heimsmeistari,” sagði Kolbeinn í fréttatilkynningu um bardagann.