Ísland verður í hópi þeirra Evrópulanda sem munu hýsa miðstöðvar snjallvæðingar. Þetta varð ljóst þegar umsókn Miðstöðvar snjallvæðingar, studd af stjórnvöldum, fékk jákvæða niðurstöðu frá valnefnd Evrópusambandsins.
Ísland hefur fengið 300 milljóna króna styrk frá Evrópusambandinu til þess að vinna að uppsetningu þessarar miðstöðvar.
Miðstöðin mun leggja lóð sín á vogarskálarnar við að byggja upp lifandi umhverfi nýsköpunar á sviði snjallvæðingar með tengingum við Evrópu í gegnum systur EDIH miðstöðvar um gervalla Evrópu.
Miðstöð snjallvæðingar í samstarfi við Rannís mun sömuleiðis vekja athygli á tækifærum til sóknar í Digital Europe Program Evrópusambandsins, sem mun verja 7,5 milljörðum Evra til snjallvæðingarverkefna og því eftir miklu að slægjast fyrir íslensk fyrirtæki á þessu sviði.
Vettvangur til stuðnings við nýsköpun
Ísland hefur verið hluti af áætlun Evrópusambandsins um stafræna Evrópu (DIGITAL Europe), sem varir frá 2021 til 2027.
Hluti af áætluninni er að stofna Evrópska miðstöð stafrænnar nýsköpunar (e. European Digital Innovation Hub: EDIH) hér á landi. Miðstöðin verður sett á laggirnar í haust af Auðnu tæknitorgi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Rannís, Origo, Syndís ásamt fleiri samstarfsaðilum og kölluð „Miðstöð snjallvæðingar“.
„Með stofnun seturs um stafræna nýsköpun á Íslandi og stuðningi Evrópusambandsins við það sem hluta af stafrænni vegferð Evrópu, er tekið mikilvægt skref í stafrænni þróun samfélagsins og skapaður vettvangur til stuðnings við nýsköpun á því sviði. Með meiri stafvæðingu spörum við fjármuni og gerum kerfið okkar skilvirkara og betra, þetta er í anda þess sem ég hef lengi talað fyrir. Aukið samstarf stjórnvalda, sveitarfélaga, háskóla og atvinnulífsins í átt að aukinni snjallvæðingu kemur því samfélaginu öllu til góðs,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar í samtali við Háskóla Ísland.
Tilkoma Miðstöðvar snjallvæðingar á Íslandi skapar tækifæri til samþættingar, samræmingar og þekkingardreifingar á grunnþáttum snjallvæðingarinnar. Lagt er áhersla á að miðstöðin muni tengja þarfir við þekkingu, færni og reikniafl innanlands og jafnframt bjóða upp á prófanaumhverfi þar sem opinberir aðilar jafnt sem einkafyrirtæki geta prófað sig áfram í nýjustu tækni án þess að leggja út í miklar fjárfestingar. Samkvæmt verkefninu verður áhersla lögð á að virkja samlegðaráhrif og öflugt tengslanet. Og mikil áhersla verður lögð á að bæta tölvuöryggi á landinu, m.a. með áherslu á framsækin rannsóknarverkefni og auka framboð menntunar á því sviði.