Nýju samstarfsverkefni Íslands, stjórnvalda í Síerra Leóne og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) um upprætingu á kynfæralimlestingum stúlkna og kvenna var hleypt af stokkunum í sendiráði Íslands í Freetown þann 6. febrúar síðastliðinn en greint er frá þessu í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Samkvæmt henni er verkefnið er til fjögurra ára og leggur upp með heildræna nálgun þar sem gagnasöfnun, rannsóknir, stuðningur við grasrótina og valdefling kvenna og stúlkna verður í forgrunni. Þá er einnig lögð áhersla á samstarf við stjórnvöld, samfélagsleiðtoga, grasrótarsamtök og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna í Síerra Leóne
![](https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Utanrikisraduneytid/Undirskrift%202.jpg)
„Limlestingar á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu misrétti og ofbeldi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um málið. „Mannréttindi og jafnrétti kynjanna eru ein af fjórum megin áherslum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands og okkur ber hreinlega skylda til að leggja okkar af mörkum til að takast á við þetta víðtæka vandamál í Síerra Leóne í góðu samstarfi við stjórnvöld og samtök með reynslu á þessu sviði.“