Íslendingar sem búsettir eru á Tenerife velta upp þeim möguleika að kæra Egil Einarsson, oftast kallaður Gillz, einkaþjálfara fyrir sóttvarnarbrot. Gillz gefur hreinlega skít í harðar sóttvarnarreglur á eyjunni fögru og birtir stoltur af því myndir á samfélagsmiðlum.
Íslenskir íbúar á Kanaríeyjum ræða nú brot einkaþjálfarans í hópi sínum á Facebook, þar sem Covid-19 og sóttvarnarmál eru gjarnan rædd. Þar hefur Díana Björnsdóttir, sem er iðin við að flytja fréttir af stöðu kórónuveirufaraldrusins á eyjunum, máls á brotum Gillz:
„Sá Siðlausi á fullu að brjóta að sér og að mynda það, sýnir hvað heimskur hann er. Það er ekki vani minn að kalla fólk fífl, tek það út og set Sá Siðlausi í staðinn.“
Egill er staddur á Tenerife að njóta með vinum sínum og fjölskyldu, þeirra á meðal er athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson. Gillz hefur þaðan birt myndir af hópnum fjölmenna að njóta á veitingastöðum og þær myndir sýna glögglega að Egill er að brjóta sóttvarnarlög eyjarinnar. Myndirnar sýna líka að einkaþjálfarinn var þess fullmeðvitaður að hann væri að brjóta lögin.
Covid-staðan á Tenerife yfir hátíiðirnar hefur verið ískyggilega þar sem hátt í 3.000 einstaklingar hafa verið að greinast daglega. Sóttvarnaraðgerðir voru færðar upp á næsthæsta stig í hættumati fyrir jólin.
Fjölmargir þeirra Íslendinga sem búa á Kanaríeyjum furða sig á þessari hegðun Gillz. Margrét er ein þeirra. „Er samferðafólkið jafn heiladautt og hann?,“ spyr hún.
Katrín er líka hneyksluð. „Það er bara SORGLEGT að sumt fólk skuli ekki geta/vilja fara eftir þeim reglum sem eru í gildi hverju sinni. Fjölmargir hafa þurft að fórna miklu vegna covid að ég tali nú ekki um þá sem hafa veikst mikið eða jafnvel dáið. Í þessu tilfelli ætti þetta unga fólk sem er á myndinni að skammast sín fyrir tillitsleysið og vitleysisganginn. Vonandi komast þau öll heil frá þessu!!,“ segir Katrín.
Stella áttar sig á hverju Egill reynir að ná fram með þessu. „Hann póstar þessu til að fá athygli…. sem tókst greinilega. Það eru nú samt 9 aðrar ábyrgar manneskjur við þetta borð öll eiga að taka ábyrgð á eigin heilsu,“ segir hún.
Hildur vill aðgerðir. „Af hverju sendið þið ekki inn kæru? Ef þau verða sektuð þá kannski breytist hugarfarið. Veitingahúsið ber lika ábyrgð og ættu líka að fá sekt,“ segir hún. Og Oddgeir er á sama máli. „Hann má reikna með sekt eða fangelsi. Spánverjar taka hart á lögbrotum,“ segir Oddgeir ákveðinn.