„Þjóðir heims verða að regluvæða vímuefni til þess að ná aftur stjórninni. Vímuefni geta verið varasöm og í vel flestum þeim löndum sem ég hef heimsótt er auðveldara fyrir börn að kaupa ólögleg vímuefni en áfengi og tóbak,“ segir leynilögreglumaðurinn fyrrverandi Neil Woods í viðtali við Hampkastið, umræðuþátt Hampfélagsins, en Woods hélt erindi á alþjóðlegri ráðstefnu sem félagið stóð fyrir um miðjan október síðastliðinn. Woods sem starfaði bresku lögreglunni um árabil og tókst þar á við harðsvíraða glæpamenn, hvetur íslensk stjórnvöld til að hefja ferlið til lögleiðingar sem fyrst.
Woods lýsir því í viðtalinu hvernig hann byggði upp tengsl í glæpaheiminum til þess að safna upplýsingum um sölu og innflutning ólöglegra vímuefna. Í fyrstu hafði hann óbilandi trú á verkefninu en hún dofnaði smám saman og hvarf fyrir fullt og allt eftir stóra aðgerð í Northampton. Woods hafði þar vingast við umfangsmikla glæpamenn og viðað að sér nöfnum, símanúmerum og tengt saman helstu persónur og leikendur. Þegar málið var orðið skothelt voru hundruð lögreglumanna kallaðar til og voru handtökur fjölmargar. Í kjölfarið voru áhrifin af aðgerðin metin og niðurstaðan var reiðarslag fyrir Woods. Talið var að sú röskun sem varð á fíkniefnamarkaðnum í Northampton hefði eingöngu samsvarað tveimur klukkustundum.
Starfið hafði gríðarlega neikvæð áhrif á sálarlíf Woods en hann þurfti oft að notfæra sér neyð fólks sem glímdi við vímuefnafíkn í stað þess að veita aðstoð. Þá varð hann bæði vitni að miklu ofbeldi og varð fyrir því sjálfur. „Það var í Leicester árið 2001 sem ég keypti í fyrsta skipti heróín af barni. Það var sjaldgæft í þá daga en þykir eðlilegt í dag. Þetta var góður drengur en á hálfu ári í bransanum breyttist hann í óargardýr. Í síðasta skipti sem ég keypti af honum þá lamdi hann höfðinu á mér í ljósastór án nokkurs fyrirvara eða tilefnis, líklega til að sýna mér hver væri með valdið. […] Í fullri einlægni þá get ég ekki sagt þér hversu oft ég hélt að ég væri að fara deyja. Ég var oft smeykur en þetta var starfið mitt og ég vildi rækja það eftir bestu getu.“
Berst fyrir afglæpavæðingu
Woods starfar í dag fyrir alþjóðlegu samtökin LEAP (Law Enforcement Action Partnership) sem stofnuð voru í Bandaríkjunum árið 2002 af fimm lögreglumönnum sem sáu að fíkniefnastríðið var tæknilega tapað. Í samtökunum eru auk lögreglumanna aðrir starfsmenn réttarvörslukerfa, til að mynda fangaverðir, dómarar, saksóknarar og lögmenn, og berjast þau fyrir afglæpavæðingu vímuefnaneyslu og eftirliti með fíkniefnamörkuðum í gegnum regluvæðingu. „Með því móti stöðvum við fyrir fjárstreymi til skipulagðra glæpahópa og þar með möguleika þeirra til að seilast til valda, til dæmis í stjórnmálum, með þeirri spillingu sem því fylgir. Þann hagnað sem myndast má svo nota til þess að aðstoða það fólk sem lendir í vandræðum með vímuefnaneyslu sína,“ segir Woods og bætir við að það sé staðreynd að um 90 prósent þeirra sem nota ólögleg vímuefni geri það án þess að þróa með sér fíkn. Hlutfallið sé meira að segja hærra hjá þeim sem nota kannabisefni.
Starfsemi LEAP hefur þróast í gegnum árin frá því að vera jafningjafræðsla lögreglumanna í Bandaríkjunum yfir í það að vera fjöldi fyrirlesara sem ferðast um allan heim. „Við erum hratt stækkandi hópur og við sinnum allt frá Sameinuðu þjóðunum og niður í grasrótina. Og það er mikilvægast að vinna í grasrótinni og stækka samtökin.“
Þá hvetur Woods íslensk stjórnvöld að huga að þessum málum sem fyrst. Margt gott sé að gerast víða um heim, til dæmis í Sviss þar sem heróín hefur verið regluvætt og í Kólumbíu þar sem stefnir í að kókaín verði afglæpavætt. Allar slíkar aðgerðir minnki umsvif glæpahópa, dragi úr ofbeldi, létti á réttarvörslukerfinu og hreinlega bjargi mannslífum.
Þáttinn má sjá í heild sinni hér að neðan en einnig má hlusta á hann á öllum streymisveitum eins og Spotify.
Gunnar Dan Wiium, stjórnarmaður í Hampfélaginu, tók viðtalið við Neil Woods, Andri Karel sá um skrif og Mickael Lakhlifi sá um tæknimál.
Nánar má lesa um starfsemi Hampfélagsins á heimasíðunni hampfelagid.is.