Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

„Íslendingar hafa verið tjóðraðir við einstaklega heimskulega sögu, hálfgert skrípó“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Afi minn var alla ævi á sjó, kom í land gamall maður með lúnar fætur. Hann missti son sinn á sjó og líka sonarson. Amma var sjómannskona og sá um allt í landi meðan afi var í löngum túrum, oft við Grænland og Nýfundnaland og oft í siglingum. Amma var hörkutól, eins og gjarnt var um konur í þessari stöðu, á meðan afi var blíðastur allra í landi. Bræður mínir voru lengi á sjó, einn nánast alla starfsævina og annar næstum hálfa. Hálfbróðir okkar hefur verið farmaður alla sína tíð og ég fór sjálfur á tvær vertíðar og pabbi reyndi fyrir sér á skaki. Ég gæti talið upp fleiri í ættinni, t.d. Óla Karls sem var vís til alls og var alla ævi á síðutogurum.“ Svona byrjar mögnuð Facebook-færsla Gunnars Smára Egilssonar, sósíalistaforingja.

Færsluna skrifaði Gunnar í tilefni af sjómannadeginum sem haldinn var hátíðlegur um allt land í gær. Þar fer hann yfir sögu forfeðra og mæðra sinna og hvernig þau háðu „stórkostlegustu mannréttindabaráttu Íslandssögunnar“ með því að sækja sér „kosningarétt, verkfallsrétt og samningsrétt og rödd.“ Segir Gunnar Möggann og auðvaldið hafi endurskrifað söguna með því að segja að „athafnaskáld hafi komið með nútímann til Íslands.“ Restina af hinu mögnuðu færslu má lesa hér að neðan.

„Margt af mínu fólki byggði upp sjávarútveg á Íslandi, sótti sjó og vann í landi í saltfisk og í síld. Ef ég rek mig aðeins aftur í ættir finn ég þar fólk sem flutti úr sveit í bæinn til að gera einmitt þetta, að byggja hér upp sjávarútveg. Sem var forsenda fyrir efnahagslegum framförum sem aftur lögðu grunnurinn að öflugra samfélagi. Þau fyrstu sem komu úr sveitinni voru líka fólkið sem stofnaði fyrstu verkalýðsfélögin og háðu stórkostlegustu mannréttindabaráttu Íslandssögunnar, réttlaust almúgafólk sem sótti sér kosningarétt, verkfallsrétt, samningsrétt og rödd. Sem síðan mótaði allt sem einhvers virði er í hinu formlega samfélagi millum okkar; orlofsrétt, veikindarétt, atvinnuleysistryggingar, almannatryggingar, eftirlaun, örorkubætur, réttinn til náms og svo áfram endalaust.
Við minnumst þessa fólks sjaldan. Mogginn og auðvaldið hefur endurskrifað söguna svo að þar er sagt að einhver svokölluð athafnaskáld hafi komið með nútímann til Íslands, efnahagslegar framfarir, aukin réttindi og betri kjör. Og að síðan hafi brautryðjendur, athafnamenn og frumkvöðlar fylgt á eftir og leyft okkur að njóta afraksturs hyggjuvits síns og dugnaðar. Bjargað okkur frá sinnuleysi og vesöld. Og þess vegna ættum við að vera þakklát fyrir að fiskimiðin okkar séu í dag eign Þorsteins Más í Samherja og Guðmundar í Brim. Að fiskinum sé best komið fyrir hjá þeim vegna þess að fólk sé almennt svo heimskt að það kunni ekki með neitt að fara. Kunni bara að kvarta. Okkur er sagt að fólki farnist best að vera sem vinnuhjú á bæjum þessara manna. Í sömu aðstæðum sem forfeður mínir og -mæður einmitt flúðu fyrir fjórum kynslóðum eða svo.
Það er hægt að stjórna fólki með því að ná yfirráðum yfir sögu þess. Sagan skilgreinir hvað fólk er, hvers það er megnugt og hvaða kosti það hefur. Íslendingar hafa verið tjóðraðir við einstaklega heimskulega sögu, hálfgert skrípó. Sem virðist bara ætla að versna.
Ég held það sé kominn tími til að hrista þessa sögu af sér. Hún er lygi.
Gleðilegan sjómannadag allir sjómenn og afkomendur sjómanna. Við ættum að nota daginn til að rifja upp söguna, ekki til að gleyma henni.
Myndin er ekki af afa. Þetta eru íslenskir togarasjómenn líklega um það leyti sem afi fór í land. Á myndinni er ekkert athafnaskáld.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -