Þriðjudagur 26. nóvember, 2024
0.9 C
Reykjavik

Íslendingar halla sér að flöskunni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þó að hér séu engir ferðamenn og engar veislur fari fram hefur sala áfengis hjá ÁTVR aukist mikið í marsmánuði, miðað við í fyrra. Lýðheilsufræðingur varar fólk við að nota áfengi til að deyfa sig ef fólk upplifir vanlíðan á tímum samkomubanns.

Íslendingar keyptu 82 prósent fleiri lítra af áfengi síðastliðinn mánudag, daginn áður en hert samkomubann tók gildi, samanborið við mánudag fyrir ári. Fyrstu þrjár vikurnar í mars jókst salan í Vínbúðum landsins að jafnaði um 20 prósent á milli ára. Íslendingar virðast halla sér að flöskunni á tímum COVID-19 og samkomubanns.

Í svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra Vínbúðarinnar, við fyrirspurn Mannlífs kemur fram að hert samkomubann, sem tók gildi á þriðjudag, sé líkleg skýring á þessari miklu sölu á mánudaginn. „Við höfum hvatt viðskiptavini til að versla fyrr að deginum og fyrr í vikunni til að minnka álag og ekki skal fullyrt hvort það sé skýringin á þessari miklu mánudagssölu.“

„Fólk þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr og ekki nýta áfengi til að deyfa sig.“

Fyrstu vikuna í mars seldu Vínbúðirnar rúma 488 þúsund lítra af áfengi. Í fyrstu vikunni í fyrra var salan 371 þúsund lítrar. Söluaukningin mælist 32 prósent á milli ára. Í annarri viku mældist söluaukningin níu prósentum meiri en í sömu viku í fyrra en aukningin var 13 prósentum meiri í viku þrjú, miðað við þá viku í fyrra.

Rafn Magnús Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis.

„Það er alveg viðbúið að einhverjir haldi að það sé góð leið að nota áfengi til að takast á við streituástand – til að róa sig niður,“ segir Rafn Magnús Jónsson, verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Embætti landlæknis. Hann segir að mikilvægast sé að hreyfa sig reglulega, borða hollan mat og sofa. „Áfengi getur haft áhrif á gæði svefns og getur haft samverkandi áhrif á virkni ónæmiskerfisins,“ útskýrir hann.

Rafn segir að Embætti landlæknis deili áhyggjum af aukinni áfengisneyslu á tímum samkomubanns með öðrum stofnunum og fagaðilum sem komi að lýðheilsu. Hann segir að áfengisneysla geti haft í för með sér slæm samskipti innan fjölskyldunnar og á líðan barna. Best sé að neyta áfengis í mjög litlum mæli og helst sleppa því alveg, ekki síst við þessar kringumstæður. „Það eru engin þekkt mörk um skaðleysi áfengis,“ segir Rafn og bætir við að áfengi sé ekki nauðsynlegt nema til að þvo sér um hendurnar.
Aukning þó ferðamennina vanti

- Auglýsing -

Fljótt á litið má reikna með að ýmsar breytur hafi áhrif á sölu áfengis í Vínbúðunum. Í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans frá árinu 2017, sem var fjölmennasta ferðamannaárið, kemur fram að sennilega hafi ferðamenn keypt 11,6 prósent af því áfengi sem selt var í Vínbúðunum það ár. Sala áfengis til ferðamanna í þessum marsmánuði er sennilega lítil sem engin, vegna faraldursins. Það gæti gefið vísbendingu um að söluaukningin til Íslendinga sé í raun meiri en þessar tölur gefa til kynna. Á hinn bóginn má benda á að sala áfengis á börum og veitingahúsum hefur síðustu daganna verið lítil sem engin.

Marsmánuður er vinsæll tími til að halda árshátíðir fyrirtækja og stofnana. Í slíkum veislum er oft mikið framboð af áfengi, sem og í öðrum samkvæmum. Einhverjir slíkir viðburðir kunna að hafa farið fram allra fyrstu daga mánaðarins, en fyrsta smitið á Íslandi greindist 28. febrúar. Formlegt samkomubann tók gildi 16. mars en fyrir þann tíma hafði ótal viðburðum verið frestað. Sem dæmi má nefna að árshátíð Póstsins, sem átti að fara fram í mars, var frestað 3. mars. Sama dag var árshátíð Össurar frestað, svo annað dæmi sé tekið. Sala áfengis í verslunum ÁTVR í marsmánuði er því sennilega fyrst og fremst til einstaklinga sem kaupa það til eigin nota, ólíkt því sem var í mars 2019.

Lýðheilsufræðingurinn Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir segir í samtali við Mannlíf að ekki sé gott að nýta áfengi sem bjargráð, hvorki á tímum COVID-19 né þegar aðrir erfiðleikar steðja að. „Fólk þarf að ganga hægt um gleðinnar dyr og ekki nýta áfengi til að deyfa sig.“ Hún segir að þessar tölur bendi til þess að Íslendingar séu að halla sér í meira mæli að áfengi. „Það sem á að vera í fyrstu sætunum er góður svefn, hreyfing og heilbrigt mataræði,“ segir hún.

- Auglýsing -

Vill leyfa áfengi í íslenskum netverslunum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra nýtti ástandið vegna COVID-19 til að vekja athygli á því sjónarmiði hennar að mikilvægt væri að auðvelda aðgengi að áfengi. „Ef einhvern tímann væri þörf fyrir löglega netverslun með áfengi,“ sagði hún á Twitter og lét fylgja teiknaða mynd af konu að yppta öxlum.

Ráðherrann hefur undanfarið unnið að því að heimila vefverslun með áfengi. Við því hefur Félag lýðheilsufræðinga, Embætti landlæknis og fleiri aðilar varað mjög eindregið. Aukið aðgengi muni hafa aukna neyslu í för með sér og áfengi sé skaðvaldur í samfélaginu. Á Twitter var Áslaugu bent á að áfengi væri engin venjuleg vara. Fjölmargir ættu í erfiðleikum með það.

„Ég geri mér grein fyrir þessum atriðum. Málið er eitt af fjölmörgum málum sem ég hef unnið að í ráðuneytinu undanfarið hálft ár. Í dag hafa Íslendingar aðgengi að þúsundum netverslana með áfengi. Íslenskir atvinnurekendur senda áfengi erlendis [sic] svo Íslendingar geti keypt það í gegn um erlendar netverslanir. Aðgengi með 10-30 íslenskum netverslunum mun ekki vera teljandi aukið aðgengi, miðað við sífellt fleiri ÁTVR búðir sem opna og lengja opnunartíma og sífellt fleiri veitingastaði með vínveitingaleyfi,“ skrifaði Áslaug Arna og bætti við að ólögleg sala áfengis væri í gangi víða. Betri árangri mætti ná með aukinni áherslu á forvarnir.

Rafn M. Jónsson hjá Embætti landlæknis segir aðspurður um ummæli ráðherrans að áfengi ætti ekki að vera forgangsmál hjá neinum. „Áfengi er á þessum tímum ekki það fyrsta sem maður ætti að panta sér á Netinu.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -