Íslendingur réðst á 59 ára leigubílstjóra í Japan.
24 ára gamall Íslendingur hefur verið handtekinn í Japan vegna gruns um að hafa ráðist á 59 ára gamlan leigubílstjóra. DV greindi fyrst frá.
Hin meinta árás átti sér stað í borginni Osaka á þriðjudaginn í síðustu viku eftir að leigubílstjórinn keyrði Íslendinginn á áfangastað sinn. Íslendingurinn á að hafa neitað að borga fargjaldið og farið úr leigubílnum. Leigubílstjórinn mun hafa elt þann íslenska og krafist þess að hann borgaði fyrir farið og fengið nokkur hnefahögg í andlitið í staðinn. Íslendingurinn hljóp í framhaldinu í burtu.
Lögregla hafði svo upp á manninum um helgina og handtók hann.