Sigurður Jónsson er 34 ára Íslendingur sem býr í Danmörku og starfar sem forritari hjá „Danmarks Teknologisk Institut“ og fyrirsæta. Sigurður býr í Kaupmannahöfn með Írisi Ösp Jóhannesdóttur, námsmanni, og börnum þeirra tveimur. Sigurður er Neytandi Vikunnar.
Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?
Já, sérstaklega á þjónustum og þegar það þarf að huga að nýjum raftækjum eða stærri hlutum inn á heimilið. Ég hef einnig verið betri í því í seinni tíð að skoða verðsamanburð á matvörum, sérstaklega eftir að allt fór að hækka.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Í Danmörku þá er mikið um tilboðsbæklinga í hverri viku fyrir mismunandi búðir. Ég kíki yfirleitt í þá fyrir vikuinnkaupin á sunnudegi og skrifa niður matarplan út frá tilboðum.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Ég tel okkur vera ágætlega dugleg að endurnýta hluti, seljum eða gefum hluti sem við erum hætt að nota. Kaupum einnig oft notaða hluti og höfum verið dugleg að kíkja á fata-og loppumarkaði. Mér finnst rosalega góð hugmynd að gefa krökkum notaða hluti í t.d afmælisgjöf, sem aðrir krakkar hafa hætt að nota. Mín upplifun er sú að krökkum er alveg sama hvort hlutir séu nýir eða ekki.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Ég reyni að fara sem sjaldnast í búðina, því þá er minni hætta á að maður kaupi einhvern óþarfa og reyni að hafa það sem ódýrast. Mér finnst gaman að fara í búðir og skoða föt, en nota yfirleitt vefverslanir til að kaupa, þar finnur maður bestu verðin.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Það er gosið og naslið
Skiptir umhverfisvernd þig máli?
Já, hún skiptir mig máli. Á heimilinu eru um 7 mismunandi ruslatunnur til að flokka í.
Annað sem þú vilt taka fram?
Nei, það held ég nú ekki.