Doktorsrannsókn Rúnu Sifjar Stefánsdóttur leiðir í ljósi að fimmtán til sautján ára íslensk ungmenni fara seint að sofa og þau sofa stutt. Svefnvenjur tengjast enn fremur mjög náið þeirra nánasta umhverfi og lifnaðarháttum hverju sinni. Þetta er meðal þess sem Rúna ver doktorsritgerð sína í íþrótta- og heilsufræði í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 9. mars.
Doktorsverkefnið er hluti af Heilsuhegðun ungra Íslendinga, langtímarannsókn á stöðu heilbrigðisþátta ungra Íslendinga og tengslum þeirra við svefn, hreyfingu og skólaumhverfi. Meginmarkmið doktorsverkefnisins var að nota hlutlæga mælikvarða til að meta svefnmynstur ungmenna á aldrinum 15 til 17 ára, í grunnskóla og aftur í framhaldsskóla. Sérstök áhersla var lögð á að skoða hvort svefnmynstur þeirra tengist námsárangri og hugrænum þáttum. Doktorsverkefnið var unnið í nánu samstarfi við Lýðheilsustöðu Bandaríkjanna (National Institutes of Health – NIH) í Washington D.C.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að íslensk ungmenni fara seint að sofa (kl. 00:43 við 15 ára aldur, kl. 01:12 við 17 aldur) og sofa stutt (6,6 ± 0,7 klst /nótt í tilviki 15 ára og 6,2 ± 0,7 klst./nótt í tilviki 17 ára). Eingöngu fimmta hvert ungmenni náði alþjóðlegum ráðleggingum um svefnlengd (8 klst.) við 15 ára aldur og enn færri við 17 ára aldur. Svefn unglinga styttist að um 24 mín á nóttu frá 10. bekk í grunnskóla og yfir á annað ár í framhaldsskóla. Rannsóknin leiddi enn fremur í ljós að nemendur sem stunduðu nám í fjölbrautakerfi í framhaldsskóla sváfu lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi.
Í einni vísindagrein Rúnu Sifjar, sem birtist í vísindatímaritinu Journal of Sleep Research, var fjallað um tengsl svefnmynsturs og námsárangurs. Niðurstöður sýndu að góð regla á svefnmynstri ungmenna hafði jákvæða áhrif á einkunnir og námsárangur við 15 ára aldur. Þessar niðurstöður hafa vakið verðskuldaða athygli og m.a. fékk vísindagreinin viðkenningu frá stærstu lýðheilsustöð heims í Bandaríkjunum (NIH).
Mikill breytileiki einkenndi svefnmynstur bæði við 15 ára og 17 ára aldur en þar er átt við háttatíma, fótferðatíma og svefnlengd. Stuttur svefn tími virðist einnig hafa áhrif á hugræna þætti hjá 17 ára ungmennum.