Mál íslensku móðurinnar sem flutti syni sína þrjá frá Noregi hefur vakið mikla athygli bæði þar á landi og heima á Íslandi.
Málið má teljast furðulegt en ekki er algengt hér á landi að foreldri sé sviptur umgengni líkt og þarna á við en móðirin fær að hitta syni sína í 16 klukkutíma á ári, undir eftirliti. Lögfræðingur konunnar staðfestir í samtali við Mannlíf að hún hafi aldrei verið dæmd fyrir neinskonar ofbeldisbrot né þekkt fyrir neina slíka hegðun. Þeir sem þekkja til konunnar segja í samtali við Mannlíf að hún sé góð móðir.
Móðirin skyldi við barnsföður sinn árið 2015 en þau bjuggu saman í Noregi með börnin sín fimm. Faðirinn vann í Finnlandi á þeim tíma og voru börnin því nánast bara hjá móður sinni, samkvæmt lögfræðingnum. Móðirin fór svo með börnin til Íslands, með leyfi föðurs. Faðirinn vildi svo hafa börnin hjá sér og fór í mál. Norskir dómstólar dæmdu honum í vil.
Barnavernd í Noregi er bæði þekkt fyrir að grípa of seint inn í mál vanræktra barna og fyrir að taka of hart á þeim málum sem þeir grípa inn í.
Nýlega var tekið upp mál á norska þinginu þar sem lagt var til að börn í Noregi fengu þann rétt að skjóta máli sínu til barnanefndar sameinuðu þjóðanna finnist þeim brotið á sér í Noregi á grundvelli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, það var fellt á þingi með 80 atkvæðum gegn 21.
„Í máli umbj. míns eiga börnin alla sína stórfjölskyldu, líka föðurmegin, á Íslandi en ekkert bakland í Noregi. Móðurmál þeirra og foreldranna er íslenska. Hagsmunum þeirra er augljóslega betur borgið á Íslandi en í Noregi sökum þessa. Rétturinn til að þekkja fjölskyldu sína er betur tryggður á Íslandi. Ákvörðun norskra dómstóla um umgengni móður er skýrt brot gegn 8. gr. MSE. Réttindi barnanna yrðu augljóslega frekar virt á Íslandi. Auk þess á faðir barnanna auðvelt með að flytja til Íslands. Systur strákanna munu eiga heima á Íslandi og ákvörðun norskra dómstóla er til þess fallin að sundra fjölskyldunni, sem aftur er skýrt brot gegn 8. mgr. MSE, sem og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna auk annarra íslenskra laga. Fjölskyldan sameinast hins vegar á Íslandi. Mál tengd föður eru til rannsóknar hjá lögreglu á Íslandi. Umbj. minn telur að hagsmunum barnanna sé óumdeilt best borgið á Íslandi,“ segir lögmaður móðurinnar.