Þættirnir gerast vestur á fjörðum á árunum 1983-1991 þegar kvótakerfið var að taka á sig mynd. Þeir fjalla um vinahjón sem ákveða að fara í útgerð með það fyrir augum að reyna að bjarga byggðinni. Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson segja í viðtali við Menninguna á RÚV að upphaflega hafi Vesturport verið beðið um að gera þætti í anda norsku þáttanna Himinbláma.
„Þá var þessu gaukað að okkur, hvers vegna við gerðum ekki þætti um kvótakerfið. Við áttuðum okkur á að við vissum í rauninni ekki mikið um það, vorum of ung til að muna eftir tilurð þess. Þannig við fórum bara að rannsaka hvað gerðist.“
Þau segjast ekki vera að leggja dóm á ágæti kerfisins.
„Við segjum stundum að þetta sé skáldskapur byggður á raunverulegum atburðum. Við erum bara að segja söguna eins og hún var.“
Þættirnir eru líka óður til níunda áratugarins. Nína og Björn Hlynur segja það hafa verið frábært að heimsækja þetta tímabil.
„Við vorum unglingar á þessum tíma, svo þetta var algjör nostalgía. Það verða rosalegar breytingar á Íslandi á þessum árum. Við förum úr því að breytast í hálfgerðu sovéskum smábæ í amerískt smáþorp. Eitísið var alveg ofboðslega hallærislegt en svo verður það töff aftur. Það var mjög auðvelt að klæða sig í karakterinn, þegar þú ert kominn í snjóþvegnar gallabuxur sem ná upp á maga og smjattpattaúlpu, þá þarftu varla að leika.“
Þótt þættirnir fjalli um eldfimt mál stilla Nína og Björn Hlynur væntingum sínum um viðbrögð í hóf.