Laugardagur 4. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Íslenskar stúlkur samþykktu að gerast burðardýr – 20 ára fangelsi í Bandaríkjunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Íslandi eru fimm fangelsi sem vistað geta alls 136 fanga og er þar með talið fangar í afplánun sem og í gæsluvarðhaldi. Innanríkisráðherra fer með yfirstjórn fangelsismála, en Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga ásamt því að hafa umsjón með rekstri fangelsa. Refsing og afplánunartími fer eftir broti og lögum þess lands sem brotið átti sér stað og getur refsingin vissulega verið mjög ólík á milli landa fyrir sömu eða svipuð brot.

Árið 2013 sátu nær tveir af hverjum þremur Íslendingum í fangelsi erlendis í Danmörku. Á þeim tíma voru 26 Íslendinga að finna bak við lás og slá í átta ríkjum, 24 karlmenn og tvær konur og voru fangarnir tíu fleiri en þeir voru árið 2011.

Íslenskar stúlkur teknar í Prag fyrir kókaínsmygl

Tvær átján ára íslenskar stúlkur voru handteknar í Prag, höfuðborg Tékklands, í nóvember 2012. Þær voru með átta kíló af kókaíni í farangri sínum. Þær höfðu flogið til Prag frá Sao Paulo í Brasilíu, þar sem þær samþykktu að gerast burðardýr. Fíkniefnin voru afar haganlega falin í farangurstösku stúlknanna. Upphaflega stóð til að þær gleyptu fíkniefnin og smygluðu þeim á milli landa innvortis.

Þær millilentu í München í Þýskalandi og í Prag voru þær handteknar með mikið magn af kókaíni í fórum sínum. Þær voru svo síðar úrskurðaðar í sjö mánaða gæsluvarðhald.

   Afar hörð viðurlög í Tékklandi

Viðurlög við fíkniefnasmygli eru afar hörð í Tékklandi og voru þær dæmdar í sjö og sjö og hálfs árs fangelsi. Áfrýjunardómstóll mildaði refsinguna niður í fjögur og hálft ár. Fram að því höfðu stúlkurnar setið inni í sitthvoru fangelsinu í Prag, en eftir að dómarnir voru mildaðir voru þær báðar fluttar í Swětla-fangelsið, sem er í um 200 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni. Áður voru þær hvor í sínu fangelsinu.

„Dómarinn tók tillit til þess hversu ungar þær eru og að þær hefðu ekki gert sér grein fyrir því hvað þær voru að gera. Þessi dómari var mun tillitssamari en fyrri dómari,“ sagði Þórir Gunnarsson, fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Tékklandi.

- Auglýsing -

„Nú fara þær í að sækja um flutning til Íslands og þurfa þær að gera það sjálfar. Málið er allt í farvegi en þetta tekur alltaf vissan tíma,“ sagði Þórir í samtali við Vísi, en þær þurftu að afplána tvo þriðju hluta dómsins áður en þær gátu sótt um náðun.

  Framsalsbeiðni stúlknanna

Í apríl 2014 byrjaði svo vinnan að fá þær framseldar til Íslands. Á Íslandi er í gildi Evrópusamningur um framsal fanga og stóð alltaf til að fá stúlkurnar framseldar til Íslands til að afplána það sem eftir var af dómnum.

Að sögn Þóris Gunnarssonar, fyrrverandi ræðismanns Íslands í Tékklandi, var unnið að því að gera verksamning við lögfræðing stúlknanna um fangaflutningana. Samkvæmt heimildum Vísis á þessum tíma, strandaði viðræðurnar á peningaþætti. Stúlkurnar þurftu að greiða fram háan lögfræðikostnað svo formlegt ferli gat hafist.

- Auglýsing -

Þórir segir Innanríkisráðuneytið hafa verið vel upplýst um stöðu mála og undirbúið undir að fá framsalsbeiðni stúlknanna inn á sitt borð. Beiðnin var afgreidd í samvinnu við lögreglu og fangelsismálastofnun.

Formleg framsalsbeiðni stúlknanna var send innanríkisráðuneyti Tékklands í júní byrjun árið 2014 og hófst framsalsferlið viku síðar. Það stóð allan tímann til að stúlkurnar yrðu framseldar til Íslands til að afplána það sem eftir var af dómnum.

„Þær eru komnar í annað fangelsi, um 160 km frá Prag og byrjaðar að vinna í súkkulaðiverksmiðju. Ég talaði við lögmann þeirra í dag og þær hafa það ljómandi fínt og eru ánægðar,“ sagði Þórir um stöðu stúlknanna á þeim tíma.

Í desember 2014 voru stúlkurnar komnar aftur til Íslands og voru í fyrstu vistaðar í kvennafangelsinu í Kópavogi. Stúlkurnar tvær voru aðeins lítill hluti þeirra Íslendinga sem sátu í fangelsum á erlendri grundu á þessum tíma.

Íslendingar handteknir hinum megin á hnettinum

Árið 2013 voru þó nokkuð margir Íslendingar vistaðir í réttarkefum víðsvegar um heiminn

Þrír Íslendingar voru vistaðir í Suður-Ameríku. Þá greindi RÚV frá því að íslenskur karlmaður á þrítugsaldri hefði verið handtekinn á flugvellinum í Buenos Aires í Argentínu með fjögur kíló af kókaíni árið 2013. Bætist hann í hóp Íslendinga sem voru handteknir í Suður-Ameríku fyrir fíkniefnasmygl. Tveir voru handteknir í Brasilíu, annar þeirra var handtekinn í Rio de Janeiro, en sá var dæmdur til 22 ára fangelsisvistar fyrir tilraun til að smygla 46 þúsund e-töflum úr landi. Þá var annar Íslendingur í farbanni í Brasilíu á sama tíma.

Tveir Íslendingar á þrítugsaldri voru handteknir í Ástralíu, en þeir voru teknir með þrjú kíló af kókaíni og var refsingin 10 ára fangelsi við slíku broti.

Einn var í fangelsi á Spáni og annar í Noregi, grunaður um morð.

20 ára fangelsi í Bandaríkjunum

Árið 2013 hafði Geir verið sá Íslendingur sem lengst hefur setið í fangelsi í Bandaríkjunum, en á þeim tíma hafði hann afplánað sextán ár af tuttugu ára dómi sem hann hlaut fyrir líkamsárás og rán í Virginíu undir lok síðustu aldar. Fram kom í umfjöllun Kastljóss um mál hans á þeim tíma að líklega hefði Geir einungis fengið tveggja eða þriggja ára fangelsisdóm hefði árásin átt sér stað í New York. Fórnarlambið var orðum prýddur herforingi í Bandaríkjaher. Bandarískur félagi Geirs sem réðst með honum á manninn fékk fimmtán ára dóm.

Íslendingar framseldir frá Íslandi

Fjórir Íslendingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, þetta sama ár, árið 2013, vegna rannsóknar umfangsmikils e-töflu- og kókaínssmygls. Þrír þeirra höfðu verið framseldir frá Íslandi vegna málsins en slíkt framsal á Íslendingum til útlanda vegna lögbrota hafa verið mjög fátíð.

Einn af þessum Íslendingum var árið 2013 dæmdur til tólf ára fangelsisvistar í Danmörku. Hann var höfuðpaurinn í tilraunum til að smygla um 70 kílóum af amfetamíni til Danmerkur, frá Spáni. Alls voru ellefu ákærðir í því máli, þar af sex Íslendingar. Tveir af þeim voru dæmdir til tíu ára fangelsisvistar vegna málsins. Annar þeirra hafði sama ár verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir smygl á fimm kílóum af amfetamíni. Þrír Íslendingar til viðbótar voru dæmdir vegna málsins, einn af þeim fékk tíu ára fangelsisdóm og tveir af þeim fengu hvor um sig sex ára dóm. Sjötti Íslendingurinn var úrskurðaður í geðrannsókn áður en refsing var ákveðin.

Sama ár voru tveir Íslendingar handteknir með fimm og hálft kíló af amfetamíni í Kaupmannahöfn. Þeir náðust með ævintýralegum hætti. Lögreglumaður á frívakt rak augun í gulan hatt á höfði manns í umferðinni og mundi eftir að hafa séð hattinn í  eftirlitsmyndavél.

Afþakka afskipti íslenskra yfirvalda

Í svari utanríkisráðuneytisins, vegna fyrirspurna um stöðu Íslendinga í erlendum fangelsum kom fram að þeir sem voru í haldi vegna fíkniefnabrota, væru 23, en þrír vegna ofbeldisbrota. Þó er ekki víst að um tæmandi upptalningu hafi verið að ræða. Þetta voru þeir fangar sem íslenskum stjórnvöldum hafði verið tilkynnt um. Einhverjir kunna að hafa komist í kast við lögin erlendis án þess að óska eftir aðstoð íslenskra stjórnvalda.

Í frétt á RÚV kom fram að þetta væri mikil fjölgun frá því sem var fyrir tveimur árum áður. En í desember 2011 var vitað um 16 íslenska fanga í erlendum fangelsum.

Ekki er þó útilokað að fleiri Íslendingar hafi verið á bak við lás og slá erlendis þar sem dæmi eru um að þeir sem hljóta dóma erlendis vilji ekki að haft sé samband heim og afþakki afskipti íslenskra yfirvalda. Auk þeirra geta verið einstaklingar í erlendum fangelsum með tvöfalt ríkisfang og hafa hlotið dóma án þess að það sé tilkynnt hingað til lands.

 

Heimildir:

Innlendar fréttir. 17. október 2013. 26 Íslendingar í fangelsi erlendis: Langflestir vegna fíkniefnabrota. Vísir.

Innlent. 17. október. 2013. Íslendingum fjölgar í erlendum fangelsum. RÚV.

Innlent. 17. október. 2013. 26 Íslendingar í fangelsi erlendis. Morgunblaðið.

Meginlöggjöf á þessu sviði eru lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005. Er þar fjallað um stjórn og skipulag fangelsismála, atriði sem varða fangavistina og um réttindi fanga og samfélagsþjónustu. En einnig snerta almenn hegningarlög nr. 19/1940, Evrópusamningur um framsal sakamanna og Samningur um flutning dæmdra manna málefni fanga.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir. 25. febrúar 2014. Dómur stúlknanna í Prag styttur. Vísir.

Þórhildur Þorkelsdóttir. 12. apríl 2014. Unnið að því að fá stelpurnar heim. Vísir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -