Kristinn Hrafnsson birti tíst frá Ísraelsher sem birtí gær en stuttu síðar eytt. Þar eru árásir á sjúkrahús og sjúkrabíla á Gaza réttlættar með vísun í alþjóðalög.
Ritstjóri Wikileaks segir réttlætingu Ísraelshers á árásum á sjúkrahús Gaza, sé áróðursbragð. „Ísraelsher sendi út tíst í gær þar sem rökstutt var að sjúkrahús og sjúkarbílar á Gaza væru lögmæt skotmörk. Tístinu var síðar eytt. Fullyrðingar um að Hamas hafi notað sjúkrahús sem skjól hefur verið hafnað af starfsliði sjúkrahúsanna, meðal annars erlendum læknum og hjúkrunarfólki. Hamas hefur boðið alþjóðlegum eftirlitsmönnum að leita af sér grun á al-Shifa sjúkrahúsinu sem nú er undir umsátri, óstarfshæft og hvar líf fyrirbura fjara nú út.“ Bætti hann við: „Ísraelsher birti svo einnig myndband frá Rantisi spítalanum eftir hertöku, sem átti að sanna málið. Það var þunnur þrettándi. Bent a göng sem fullyrt var að lægju til spítalans en engin göng sýnd. Vistarverur undir spítala sem sagðar voru til að að hýsa gísla. Sannanir: bleyjur, dagatal, peli. Nokkur vopn á gólfi sem hafði verið snyrtilega raðað upp. Áróðursdeild Ísraelshers er á yfirsnúningi en uppskeran rýr.“
Þá spyr Kristinn að ef satt reynist að Hamas grafi sig undir spítala, hvort það gefi „sjálfkrafa heimild til þess að slátra öllu kviku þar innandyra.“ Segir hann það vera túlkun ísraelskra stjórnvalda og að þeir segi það innan ramma alþjóðalaga. „Þessi galna túlkun endurspeglar ef til vill þann þankagang að ísrelskir gíslar Hamas þann 7. október hafi verði réttdræpir sem fórnarkostnaður við að fella hermenn Hamas. Vísbendingar um að það hafi gerst eru að verða meira sannfærandi með degi hverjum, meðal annars með vitnisburðum þeirra sem komust af og hafa tjáð sig við fjölmiðla í Ísrael.“
Aukreitis minnist Kristinn á í færslu sinni á fjölmiðlaumfjöllum og grimmileg morð Hamas á ungabörnum og segir þær fregnir eldast illa. „Stríðsfyrirsagnirnar um 40 afhausuð ungabörn hafa elst illa. Ísraelsstjórn hefur birt nafn á einu 10 mánaða ungabarni sem dó. Alveg eins víst að það hafi dáið þegar her Ísraels varpaði eldsprengjum inn í hýbýli án þess að skeyta um að gíslar kynnu að falla.“
Kristinn segir að „slátrunin“ á Gaza haldi áfram á meðan „áróðursstríðið geysi á vígvöllum internetsins.“ „Eins berast uggvænlegar fréttir frá hernumdu svæðinum þar sem hermenn Ísraels fara hamförum. Líf Palestínumanna þar er óbærilegt og mannfall eykst. Á þriðja þúsund hefur verið varpað í fangelsi þar sem viðkomandi sæta pyntingum.“
Lokaorð Kristins eru sterk. „Á hernumdu svæðinum getur áróðursmaskína Ísraels illa skýlt sér á bak við hysterísk og aumkunarverð öskur um tilvistarógnina af „ISIS-Hamas-Hitler hugmyndafræðinni“. Aldrei að vita þó nema þeim hugnist að „finna“ Mein Kampf undir blóðugu barnarúmi í húsi sem þeir hafa rústað.“