Á mánudaginn síðastliðnum hófst Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland, með komu flugsveitar ítalska flughersins. Er um að ræða sjötta skiptið sem Ítalir leggja bandalaginu til flugsveit í þágu verkefnisins. Seinast var flugveit Ítala hér á landi fyrir tveimur árum.
Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar má lesa um málið. Þar segir að Ítalir annist loftrýmisgæsluna í samstarfi með starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlanthafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Hin ítalska flugsveit kom til landsins á mánudaginn eins og fyrr segir, með fjórar F-35 orrustuþotur og 135 hermenn. Á tímabilinu 26. apríl til 6. maí ert gert ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum en framkvæmd verkefnisins er með sama hætti og fyrri ár og í fullu samræmi við loftýmisgæsluáætlun Nató fyrir Ísland.
Samkvæmt Gæslunni hafa Ítalarnir aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en þar eru fyrir flugsveitir bandaríska sjóhersins sem er nú hér á landi við kafbátaeftirlit. Þá annast Landhelgisgæsla Íslands framkvæmd verkefnisins í umboði utanríkisráðuneytisins og í samvinnu við Isavia. Lýkur loftræmisgæslunni í lok júní.