Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt samkvæmt dagbók hennar.
Tilkynnt var um mann að reyna að brjótast inn í íbúð, hann hljóp á brott þegar hann varð var við tilkynnanda. Lögregla svipaðist um eftir manninum en hann fannst ekki. Tilkynnt var um umferðaróhapp þar sem ökumaður ók á umferðarskilti en hann lét sig hverfa áður en lögregla kom á vettvang. Þá voru fjórir menn handteknir í nótt fyrir akstur undir áhrifum áfengis en slík hegðun er ólögleg.
Lögreglu barst tilkynning þar sem þrír aðilar réðust á einn einstakling en árásmennirnir voru farnir þegar lögregla kom á staðinn.
Ökumaður rafmagnshlaupahjóls var fluttur á slysadeild eftir fall. Þá barst lögreglu tilkynning um aðila sem var að henda jógúrti í hús. Ekki liggur fyrir hver staðan á því máli er.