Knattspyrnuþjálfarinn Jóhann Gunnarsson var myrkur í máli gagnvart KSÍ og vill fá svör frá knattspyrnusambandinu.
Jóhann Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Þórs/KA, var mjög ósáttur með tap liðsins móti Þrótti í gær í viðtali við mbl.is. Ekki einungis var hann ósáttur við spilamennsku liðsins heldur var hann gríðarlega ósáttur með KSÍ. Forsaga málsins er sú að tveir af bestu leikmönnum liðsins eru að spila á HM sem fer fram þessa stundina og eiga báðar mögulega að komast með sínu landsliði áfram í 16. liða úrslitin. Jóhann vill meina að KSÍ komi ekki til móts við þær eða Þór/KA í þessu máli og hefur liðið ekki fengið neinum leikjum frestað.
„Ef þær komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslit þá yrði það frábært fyrir þær en hrikalegt fyrir okkur. Þessir tveir leikir sem við höfum spilað án þeirra hefðu ekki átt að fara fram. KSÍ stakk okkur illa í bakið með það og mismunar félögum mjög illa. Við skiljum það ekki og fáum engin svör af hverju þetta er svona.
KSÍ frestar einhliða leik hjá Völsungi og KF út af einum leikmanni sem er valinn í 30- manna hóp hjá Tanzaníu í júní. Þá var enginn spurður. Leiknum var frestað og fundinn nýr tími, allt gert af KSÍ. Svo kemur U-19 og þá er í boði fyrir liðin að fresta ef þau eiga leikmann þar. Þá er andstæðingurinn ekki spurður og nýtt úrræði fengið.
Svo kemur að þessu að það er eitthvað lítið mót í Nýja-Sjálandi og Ástralíu, sem heitir HM. Þar eru dagsetningar klárar en leikmenn á Íslandsmótinu að spila. KSÍ neita okkur um að færa leiki og það er eitthvað skrýtið við það auk þess sem skoðun andstæðingsins er allt í einu farin að vega þyngst,“ sagði Jóhann um málið í viðtali eftir tapið gegn Þrótti.
„Ég á erfitt með að útskýra þetta allt saman og ég væri svo til í að einhver myndi spyrja KSÍ að þessu því að þeir svara okkur ekki. Það eina sem þeir segja við okkur er að KSÍ geti ekki tekið tillit til landsleikja úti í heimi, sem eru í glugga sem mótahald á Íslandi er ekki raðað niður eftir. Ísland hefði alveg getað verið með á þessu móti en við komumst bara ekki þangað.
Svo má spyrja, af hverju mismunum við þessum leikmönnum? Þeir eru ekki íslenskir en þeir eru samningsbundnir íslenskum félögum. Þeir eiga heima hér, fá kennitölu og bankareikning. Ég veit ekki af hverju þetta er svona en væri mjög til í að vita það.“