„Ég er ekkert heljarmenni en ég greip ráðherrann og kom þannig í veg fyrir að Ingibjörg félli í gólfið,“ sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður Ríkissjónvarpsins, í samtali við DV árið 2001. Var það þann 17.janúar 2001 þegar Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum heilbrigðisráðherra, féll í yfirlið í beinni sjónvarpsútsendingu frá Alþingi. Jóhanna Vigdís hafði fengið Ingibjörgu og Össur Skarphéðinsson í viðtal. Ingibjörg var vart búin að segja nema nokkur orð þegar hún féll fram yfir sig. Í frétt DV segir að ráðherrann hafi verið „afmyndaður af kvölum í andliti og rjúfa þurfti beina fréttaútsendingu.‘‘
Vigdísi var brugðið og sagðist alls ekki hafa átt von á þessu. „Ingibjörg var fljót að ná sér og var til í að halda viðtalinu áfram. Þá stóð hún sig líka vel,“ sagði Jóhanna Vigdís sem sjálf var enn að jafna sig þegar viðtalið var tekið við hana, morguninn eftir uppákomuna. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, stóð við hlið Ingibjargar þegar leið yfir hana. Honum var einnig brugðið en sagðist sem betur fer hafa heyrt að líðan ráðherrans væri góð. Vildi hann að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Þetta kvöld var það ótrúleg tilviljun að Sveinn Magnússon, læknir og starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins, var staddur nærri Alþingishúsinu. Hann var akandi á leiðinni heim til sín með útvarpið í gangi og heyrði því hvað gekk á á Alþingi. Sveinn var ekki lengi að snara sér út úr bílnum og hlaupa niður í Alþingishús þar sem hann hlúði að ráðherranum.
Eftir að Jóhanna hafði lokið viðtalinu við Ingibjörgu fylgdi Sveinn henni niður á spítala þar sem hún gekkst undir skoðun. Ísólfur Gylfi Pálmason, fyrrum alþingismaður og bróðir Ingibjargar, sagði í viðtali við DV að systur sinni liði vel og ætti að hvíla sig fram yfir helgina – Skýringin var þreyta. „Mér skilst að héma sé um ógurlega ofþreytu að ræða sem braust svona fram. En það er harka í genunum hjá okkur og það skýrir hvers vegna systir mín treysti sér til að ljúka sjónvarpsviðtalinu þrátt fyrir að hafa fallið í yfirlið,“ sagði Ísólfur og bætti við að systir sín væri energísk og gleymdi stundum að borða þegar mikið er að gera.
Heimild: Tímarit.is DV