Knattspyrnuþjálfarinn Jóhannes Karl Guðjónsson er hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en greint er frá þessu í tilkynningu frá Knattspyrnusambandi Íslands.
Jóhannes mun halda til Danmerkur og tekur við liði AB sem spilar í dönsku þriðjudeildinni. Jóhannes var lengi einn af bestu knattspyrnumönnum Íslands en hann spilaði með Burnley, Aston Villa og Leicester City í ensku úrvalsdeildinni og Real Betis í spænsku úrvalsdeildinni. Þá lék hann 34 landsleiki fyrir íslenska landsliðið.
Hægt er að lesa alla tilkynningu KSÍ hér fyrir neðan:
„Jóhannes Karl Guðjónsson hefur hefur óskað eftir því að láta störfum sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla og mun hann taka við þjálfun liðs AB í Danmörku. Jóhannes Karl lætur af störfum frá og með deginum í dag og verður því ekki með A landsliði karla í næsta verkefni liðsins, sem eru tveir vináttuleikir ytra í næsta mánuði – gegn Englandi 7. júní í London og gegn Hollandi 10. júní í Rotterdam. Stefnt er að því að ganga frá ráðningu á nýjum aðstoðarþjálfara landsliðsins sem allra fyrst.
Skagamaðurinn Jóhannes Karl var ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla í janúar 2022. Þjálfaraferilinn hóf hann hjá HK árið 2016 og var þar við stjórnvölinn þar til hann sneri heim á Skagann árið 2018 og tók við liði ÍA, sem hann stýrði þar til hann hóf störf með landsliðinu.
KSÍ þakkar Jóhannesi Karli fyrir góð störf með landsliðinu og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.“