Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Jóhannes eftirherma var næstum dáinn og fékk nýtt hjarta: „Ég er bara þakklátur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í fyrsta hlaðvarpsþætti sínum eftir áramót ræddi Guðni Ágústsson við skemmtikraftinn landsþekkta, Jóhannes Kristjánsson. Sá síðarnefndi hefur getið sér gott orð sem eftirherma í gegnum árin. Þar eru einmitt einna þekktastar eftirhermur hans af Guðna sjálfum.

 

Síðasti maðurinn í dalnum

Jóhannes Kristjánsson er sveitamaður, fæddur og uppalinn á Brekku á Ingjaldssandi. „Ég er síðasti maður sem fæddist þarna í dalnum. Það fæddust fleiri á eftir mér en þeir fæddust nú á sjúkrahúsum og svona.“ Jóhannes fæddist í heimahúsi og ljósmóðirin kom til þeirra af næsta bæ til þess að aðstoða við fæðinguna. Hún var föðursystir Jóhannesar.

Foreldrar Jóhannesar voru Kristján Guðmundsson og Árelía Jóhannesdóttir, bændur á Brekku. Í heildina áttu hjónin tólf börn, sex stúlkur og sex drengi.

Jóhannes hefur verið skemmtikraftur um árabil og hermt eftir hinum ýmsum stjórnmálamönnum, ekki bara Guðna sjálfum. Til dæmis hefur hann hermt eftir Steingrími Hermannssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann leiddist eiginlega óvart út í fagið.

Jóhannes segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á íslenskri tungu. „Í staðinn fyrir að safna frímerkjum hafði ég áhuga á íslensku og hef áhuga á henni enn þá. Til dæmis þegar ég var í héraðsskólanum á Núpi, þegar allir voru á bíó eða balli, þá var ég að lesa orðskýringar. Hvað íslensk orð þýða, gömul orð. Í þessu hékk ég marga klukkutíma og svo var bara náma þegar ég kom á þingið. Þar töluðu allir svo flott mál. Það er bara ekki eins núna. Það er kannski eðlileg þróun, ég veit ekkert um það. Breyttir tímar.“

- Auglýsing -

 

Konan hans heima fyrir tilviljun þegar hann fékk hjartaáfall

Jóhannes fékk hjartaáfall þegar hann var 43 ára gamall og var næstum dáinn í nokkur skipti. „Sennilega var það út af bólgusjúkdómi. Það er talið, en við getum ekkert fullyrt það. Ég er ekkert sár að hafa lent í þessu af því að það að hafa kynnst Landspítalanum, sjúkrahúsi, fólkinu; ég er bara þakklátur. Ég lærði svo margt.“

Inntur eftir því hvort ekki hafi verið um kraftaverk að ræða segir Jóhannes svo vera.

- Auglýsing -

„Og margsinnis. Íslensku læknarnir voru ofboðslega færir og allt starfsfólkið. Það er alveg með ólíkindum.

Konan mín var heima fyrir tilviljun. Ég var að koma heim frá því að skemmta, frá Ólafsvík. Þetta var á sjómannadaginn. Svo vakna ég snemma um morguninn til að panta tíma fyrir bílinn minn og þá bara steindett ég niður. Konan mín er þarna, og dóttir mín, sem var líka heima, hringir á sjúkrabíl og það kemur lögreglubíll sem var að mæla hraðann í götunni fyrir utan húsið hjá mér. Strákurinn sem kemur inn hefur sérmenntun í því að starta svona fuglum og braut í mér þrjú rifbein, sem betur fer. Svo kom sjúkrabíll og þeir fjönduðust á mér í korter með rafmagni og komu mér í gang. Svo var þetta svona í ár.“

 

Bið eftir hjarta og Ferguson-vél

Þetta voru engar smá skemmdir á hjarta Jóhannesar. Hann þurfti hreinlega að fá nýtt hjarta – það var ekkert annað í boði. „Það var sett vél í mig sem var nákvæmlega eins og vatnsdælan í gamla Ferguson. Hún dældi blóðinu í fjóra, fimm mánuði, á meðan ég var að bíða eftir hjartanu. Svo fékk ég það. Ég lærði töluvert um hjartað og þetta – ég vissi náttúrlega ekki neitt frekar en fólkið á götunni. Ég man þegar ég var að versla, bara í Melabúðinni eða einhverjum stórmarkaði. Þá, sennilega af því fólki þykir vænt um mig, var fólk að taka smjör og svona og segja: „Þú mátt ekki borða þetta“ og „Þú mátt ekki borða hitt“. Nú, eða kalla á mig á þar næsta kassa: „Jæja! Þú lítur nú bara vel út. Hvað kom út úr síðustu blóðrannsókn? Er þetta ekki allt í lagi?“ Mér var svona ekkert vel við þetta, en ég ákvað að pirra mig ekki á þessu, heldur brosa. Því að hugsun ræður líðan. Þannig að ég ákvað að brosa. Það hvernig þú hugsar, það ræður því hvernig þér líður. Þessu er ég búinn að kynnast uppi á Reykjalundi og þetta er alveg hroðalega góður galdur sko.

Ef maður fer inn á Facebook er gott að muna þetta. Allt í helvíti. Ég man þegar varðskip var að koma, nýja Freyja. Það var bara ryðdallur, ónýtur, ef maður bara las í gegnum Facebook. Ekki hægt að nota þetta, allt ónýtt. Svo kemur í ljós að þetta er hið besta skip og allt eftir því. Þá hugsaði ég: „Hugsun ræður líðan“, því ég var nú hálfpirraður á þessu; neikvæðninni. En átti ég að vera pirraður áfram? Nei, ég læt ekkert annað koma mér í það ástand. Hugsun ræður líðan; þú verður að æfa þig á þessu nokkrum sinnum. Þetta kemur ekki strax. Æfðu þig bara nokkrum sinnum. 21 sinni helst.

Þetta er ódýrara en mörg kíló af geðlyfjum.“

Loks kom að því að Jóhannes fengi nýtt hjarta, eftir langa spítalavist og nokkra bið. Til þess að fá nýja hjartað þurfti hann að fara til Svíþjóðar í aðgerð. Nokkrum mánuðum eftir hjartaskiptin hafði hann náð heilsu.

„Bara strax, þannig lagað. En ég fór ekki í fjallgöngu fyrr en eftir fjóra, fimm mánuði. Með hópi af fólki og ég var fyrstur upp. Þurfti að bíða í korter. Menn eiga eftir að þurfa að sitja uppi með mig miklu lengur heldur en ella. Maður þarf að reyna að haga sér eftir því.“

 

Hrifinn af Ara Eldjárni

Jóhannes er enn að skemmta. Covid hefur þó strik sitt í reikninginn hjá honum eins og öðrum í skemmtanabransanum. „Það var gott haustið, þannig. Þessi pest fer eins og bylur.“

Guðni hefur á orði við Jóhannes að hann hafi alltaf verið leikinn í því að smíða setningar upp í menn sem fólk hafi síðan talið þá sjálfa hafa sagt. Guðni segir að fólk haldi enn að hann hafi sagt ýmislegt sem Jóhannes bjó sjálfur til. Dæmi um það er setningin „Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur.“ Jóhannes lýsir því hvernig hann leiti að sérkennum hvers og eins sem hann ætli að herma eftir með þessum fleygu orðum:

„Að leika á þá hörpustrengi sem fagrir eru í manninum.“

Jóhannesi þykir mikið til uppistandarans Ara Eldjárns koma.

„Þar sérðu nú að íslenskukunnátta hans skiptir gríðarlegu máli. Það er nú það sem fleytir honum yfir holt og hóla. Fyrir utan allt annað. Þetta skiptir miklu máli. Hann hefur svo mikið vald á málinu. Það fleytir honum langt. Ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því, en ég hef tekið eftir því.“

 

Aðspurður segist Jóhannes ætla að halda áfram á sömu braut, að skemmta, um óákveðinn tíma.

„Ég byrjaði aldrei og þess vegna ætla ég aldrei að hætta. Ég er bara.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -