Jón Baldursson bridgemeistari er látinn. Jón lést aðfararnótt laugardags en greint er frá andlátinu á heimasíðu Bridgesambands Íslands. Jón fæddist þann 23. desember 1954. Hann var 68 ára.
Jón spilaði sex hundruð landsleiki í bridge fyrir hönd Íslands og vann hann ýmsa titla til dæmis Generali master, heimsmeistarakeppni í blönduðum flokki, Transnational sveitakeppni en auk þess varð hann tvisvar sinnum Norður-Ameríkumeistari. Þá varð hann Norðurlandameistari fimm sinnum, síðast árið 2019.
Á heimsíðu Bridgesambands Íslands er Jón sagður hafa verið vafalaust besti bridgespilari Íslands fyrr og síðar. „Jón Baldursson er í “Hall of Fame” Evrópska Bridgesambandsins.
Við flytum Ellu, fjölskyldu Jóns og vinum samúðarkveðjur. Á sama tíma þökkum við fyrir allt það sem Jón gerði fyrir Bridge, Jón skilur eftir sig þekkingu inn í hreyfingunni byggða á getu, reynslu og sigurvilja,“ segir að lokum á heimasíðu Bridgesambandsins.