Ekki eru allir ánægðir með nýja eiganda Twitter, furðufuglinn og ríkasta mann heims, Elon Musk. Jón Gnarr er einn af fjölmörgum óánægðu tvíturum.
Jón Gnarr ef afar vinsæll á Twitter en þar hefur hann birt ýmsar vangaveltur, hugmyndir, spé og spekúlasjónir við mikla hrifningu fylgjenda hans á samfélagsmiðlinum. En í dag hefur Jón birt röð færsla á Twitter þar sem hann veltir fyrir sér að yfirgefa Twitter. Ástæðan eru kaup Elon Musk á miðlinum.
„jæja, endalok twitter bara að verða að raunveruleika. kynntist sósíals fyrst á irkinu. kolféll fyrir facebook 2010. svo twitter. fer nú varla að byrja á tik tok núna. verð kannski sona google plus kall. eða fer bara að einbeita mér að vinnu og bulla í barnabörnum“
Stuttu síðar skrifar Jón: „get kannski tjáð mig bara á youtube? skoða þetta!“ og litlu síðar birti hann eftirfarandi færslu:
við vorum eitt sinn heilbrigt og lifandi samfélag https://t.co/LliKp3JyWA
— Jon Gnarr (@Jon_Gnarr) November 2, 2022
Að lokum birtir Jón færslu frá Elon Musk og skrifar við hana: „hann er búinn að staðfesta þetta.“ Í færslu Musk er milljarðamæringurinn að tilkynna breytingar á Twitter. „Twitter’s current lords & peasants system for who has or doesn’t have a blue checkmark is bullshit. Power to the people! Blue for $8/month.“
Þetta þýðir að nú þarf fólk að borga 1.165 kr (á gengi dagsins í dag) á mánuði fyrir notkun á bláa merkinu sem staðfestir að þú sért sá sem þú segist vera. Hefur þessi ákvörðun mætt gríðarlega mikilli andstöðu notenda Twitter en margir þeirra segjast ætla að hætta á miðlinum.