Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

Jón Ingi: „Þjónusta við bæjarbúa er bensínið sem keyrir mann áfram“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stjórnmálamaðurinn og leikarinn Jón Ingi Hákonarson er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði og Mannlíf átti við hann viðtal um lífið og tilveruna og ýmislegt fleira.

Segðu mér, hvaðan ertu? 

Ég bjó í Norðurbænum fram til tíu ára, þá varð fjölskyldan að flytja úr Hafnarfirði til Reykjavíkur því að ekki var hægt að fá bankafyrirgreiðslu í Sparisjóðnum þar sem foreldrar mínir voru hvorki innfæddir Hafnfirðingar og ekki voru þau í Flokknum. Konan mín er aftur á móti innfæddur Hafnfirðingur, fædd á Sólvangi á þriðju hæð og setning sem ég hef oft heyrt frá henni er “ég fæddist á Sólvangi þriðju hæð, ég vann á Sólvangi á þriðju hæð og ég ætla að enda á Sólvangi á þriðju hæð.”

En við fluttum í vesturbæinn en ég sór þess dýran eið að koma aftur og við það stóð ég. Ég átti góða æsku, var í fótbolta og handbolta og eignaðist marga góða vini á þeim vettvangi. Þegar ég hugsa til baka þá var ég heppinn með félagsskap og er ákaflega þakklátur fyrir það, því slíkt er ekki sjálfsagt.

Hvað ætlaðirðu að verða þegar þú yrðir stór?

Ég ætlaði lengi vel að verða strætóbílstjóri og kunni nöfnin á öllum strætóleiðunum í gamla daga, ég elskaði að vera í strætó. Þessi draumur dó þegar ég varð aðeins eldri. En þegar ég var í menntó þá hafði ég mikinn áhuga á því að verða hagfræðingur, en hætti í hagfræðinni þegar ég kynntist leiklistinni í Stúdentaleikhúsinu. Þá átti leiklistin mig allan.

- Auglýsing -

Örlögin höguðu því að ég fór á æfingu í Stúdentaleikhúsinu á sínum tíma og Benedikt Erlingsson var með námskeið og það var svo skemmtilegt að ég ákvað að leggja þetta fyrir mig og fór til London og lærði leiklist. Frábær ákvörðun, fátt hollara ungum manni en að standa á eign fótum í öðru landi, læra nýja siði og menningu. Dásamlegur tími og kynntist sjálfum mér upp á nýtt.

Leiklistin – þið eruð leikarahjón þú og Laufey Brá. Býr hún alltaf í þér, kannski ykkur báðum, leiklistin?

Ég kynntist náttúrulega Laufeyju minni á leiksviðinu þannig auðvitað sameinar leiklistin okkur.

- Auglýsing -

Fátt ef ekkert hefur mótað mig meira en leiklistin, hún hefur gefið mér svo margt, hvernig ég hugsa og hvernig ég nálgast viðfangsefnin.

Í leiklistinni er bara eitt bannorð sem er orðið NEI.

Agi listarinnar, sköpunarkrafturinn, samvinnan og að vera stöðugt fyrir utan þægindarammann er eitthvað sem ég bý að og hjálpar mér í pólitíkinni. Leiklistin býr í mér og mun búa í mér þar til yfir lýkur, ég er leikari þó ég sé ekki að leika. 

Ég fékk á sínum tíma nóg af sjálfum mér sem leikara, var orðinn hrokafullur og sjálfumglaður. Égáttaði míg á því eitt kvöldið þar sem ég var í uppklappinu að ég var ekki ánægður með mig, þó að ég væri að leika í frábærri sýningu, í draumahlutverki og með stórskotaliði samleikara. Ég man að ég fór heim og tók þá ákvörðun að gera eitthvað annað. Mér fannst það óvirðing við leiklistina að vera ekki 100% glaður og þakklátur því ég var að lifa drauminn. Ég fór í MBA nám í HR og í Madrid, auk meistaranáms í markaðsfræði. Mér finnst þessi kokteill af skapandi hugsun og viðskiptafræði vera það sem ég á að vera að nota.

Áhugamál þín og fjölskyldunnar?

Mér finnst fátt eins skemmtilegt og nærandi og að fara í leikhús eða tónleika, mætti gera meira af því. En ég er mikill íþróttaáhugamaður, stunda líkamsrækt og golf. Svo er æðislegt að ferðast með henni Laufeyju minni sem er fjölskyldan mín, þar sem við gátum ekki eignast börn. Þess vegna skiptir það mig miklu máli að skapa hér samfélag þar sem fólk getur verið sjálfstætt eins lengi og mögulegt er. Við munum ekki geta reitt okkur á stuðning afkomenda okkar því er það mitt hjartans mál að eldra fólk fái þá þjónustu sem þörf er á. Það eru ekki allir jafn heppnir að geta reitt sig á stuðning afkomenda sinna.

Stjórnmál, hvernig kom það til? Af hverju Viðreisn?

Ég hef alltaf verið mjög pólitískur, fylgst með frá því ég var barn og unglingur. Fyrsti flokkurinn sem ég studdi að einhverju ráði var Alþýðuflokkurinn, en ég missti svo pólitískt heimili þegar Samfylkinging var stofnuð. Ég tengdi ekki við hana og varð þá partur af hinu fljótandi fylgi en skilaði ansi oft auðu í kosningum. Þegar Benedikt Jóhannesson og félagar hófu undirbúning að stofnun nýs stjórnmálaflokks varð ég forvitinn og fór að mæta á fundi og leist vel á það sem ég heyrði og kunni vel við fólkið. Mér fannst líka mjög spennandi að taka þátt í starfi flokks alveg frá stofnun hans. Ég er í eðli mínu Krati með sterkan hægri fót og ég fann þessu eðli mínu ágætis heimili í Viðreisn.

Sérðu fyrir þér stjórnmál sem aðalstarf þitt næstu árin eða áratugina?

Mér hefur fundist alveg einstaklega gaman og gefandi að fá að vera í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þetta starf á vel við mig þar sem ég er nokkuð góður í að koma mér inn í mörg ólík mál, setja mig inn í flókin mál og skýra þau út á einfaldan hátt. Ég hef svo breitt áhugasvið og hef svo mikla ánægju af því að vinna með ólíku fólki og vera stöðugt að læra nýja hluti. Eins og staðan er þá gæti ég alveg séð það fyrir mér að taka að mér fleiri verkefni í pólitík.

Hvað bjóðið þið í Viðreisn upp á fram yfir aðra flokkar? Hvers vegna ætti fólk að kjósa þig og ykkur en ekki aðra flokka?

Ég myndi aldrei leyfa mér að segja að við bjóðum upp á eitthvað sem er betra, við erum einfaldlega valkostur, við erum öðruvísi en aðrir flokkar.

Svo er það kjósenda að meta hvort það sé betra eða verra. En í mínum huga þá erum við valkostur í þessum kosningum fyrir þá sem vilja aukna fagmennsku í stjórnun bæjarins og sjá tækifærin út frá langtímasýn en ekki út frá stundarhagsmunum. Það sem mér líkar best við Viðreisn er að við tökum stöðu með neytendum og notendum kerfanna.

Annað sem fellur vel að mínu gildismati er að lífsgæði og valfrelsi eru sitthvor hliðin á sama peningi. Ég vil til að myndaa auka raunverulegt valfrelsi í skólamálum og félagsþjónustu. Fólk á að fá að blómstra á eigin forsendum, en stundum vilja kerfin okkar steypa okkur í sama mót. Það fer í taugarnar á mér. Sérstaklega þegar fólkið er farið að þjóna kerfinu í stað þess að kerfin þjóni fólkinu.

Jón Ingi, ertu ekki bara einn af þeim sem segir fallega hluti kortér í kosningar og svo ekkert meir þangað til það styttist í næstu kosningar á nýjan leik? 

Þú ert ekkert að skafa utan af því, það er gott.

Það er bara ein leið til að komast að því hvort að ég sé froðusnakkur eða heilsteyptur einstaklingur sem vill gera vel og það er gefa mér tækifæri til að sýna úr hverju ég er.

En ég vona að málflutningur minn síðustu fjögur ár gefi fólki einhverja tilfinningu fyrir því hver ég er og hverju ég stend fyrir.

Eitt af því sem ég hef komist að á kjörtímabilinu og er þakklátur fyrir er sú staðreynd að ég skulda engum neitt. Það á enginn neitt inni hjá mér. Það er mikið frelsi fólgið í því og það frelsi vil ég ekki missa.

Ég vona að þetta svar sé ekki út í hött, en ég er alveg hundrað prósent viss um það að ekki eru allir ánægðir með mín störf og munu kalla mig froðusnakk og popúlista. En ég veit líka að það eru einhverjir þarna úti sem líkar vel við það sem ég hef staðið fyrir. Ég hef að minnsta kosti reynt eftir bestu getu að standa fyrir máli mínu og rökstyðja mitt mál.

Ég hef líka hlaupið á mig og dregið rangar ályktanir, en ég hef þá líka beðist velvirðingar og afsökunar þegar það hefur gerst. En í raun er þessi spurning erfið vegna þess að það er í raun kjósenda að meta það hvort ég sé pappakassi eða eitthvað annað.

Ef þið haldið ykkur inni, hvað bæti þið við, er einhver flokkur eða flokkar sem eru efstir á óskalistanum varðandi samstarf?

Það er ljóst að það hafa verið átök um mörg mál á þessu kjörtímabili og minnihlutinn hefur náð að vinna vel saman. Þar hefur ríkt traust á milli okkar og gagnkvæm virðing þrátt fyrir ólíkar skoðanir.

Aftur á móti er ljóst að nokkrir bæjarfulltrúar úr minnihlutanum munu ekki setjast aftur í bæjarstjórn þannig að það flækir aðeins málin. Ég vil aftur á móti snúa spurningunni við og spyrja hverjir séu tilbúnir að vinna með okkur í Viðreisn því við gerum kröfur um fagmennsku, gagnsæi og faglega ráðinn bæjarstjóra.

Útilokið þið í Viðreisn samstarf með einhverjum flokki eða flokkum?

Nei, en það er ljóst að minnihlutinn hefur unnið vel saman og þar ríkir gott traust.

Er einhvern tímann hægt að stimpla sig út eftir erfiðan dag eða góðan í stjórnmálum?

Ég átti stundum í erfiðleikum með það fyrstu tvö árin en svo tók ég meðvitaða ákvörðun um að stimpla mig út á kvöldin.

En ég neita því ekki að þegar þung og erfið mál eru til umfjöllunar þá er það mjög erfitt. Erfiðast hefur þó verið að vinna í málum þar sem fólk hefur persónugert ágreininginn og vænt mann um eitthvað misjafnt. En ég tók líka meðvitaða ákvörðun um að brynja mig gagnvart því.

En þessi þjónusta við bæjarbúa er svo gefandi og mikilvæg að það er bensínið sem keyrir mann áfram.

Jón Ingi Hákonarson er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -