Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, segist ekki ætla að verja Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vantrausti, sem Inga Sæland hefur boðað en alþingi kýs um það í næstu viku.
Jón staðfestir þetta í viðtali í Spursmálum þar sem hann var gestur auk Snorra Mássyni, ritstjóra miðilsins Ritstjóri.is og Heiðu Kristínu Helgadóttur, framkvæmdastjóra.
Eftirfarandi sagði Jón í viðtalinu: „Þetta er bara eitt af þessum stóru vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, þessi vantrauststillaga sem hefur verið boðuð og mun koma fram. Og ég hef sagt það áður að ég sé ekki bara út frá prinsippum hvernig þingmenn sem hafa einhver prinsipp í pólitík geti varið ráðherra sem gekk fram með slíku offorsi, sem hún gerði í þessu tilfelli og braut ekki bara lög heldur sennilega stjórnarskrá lýðveldisins. Og ég vil segja með opin augun því það var varað við þessu. Þetta lá svo í augum uppi. Látum liggja milli hluta dóminn, við getum rætt það, forsendur mála sem fara fyrir dómstóla og eru svona ágreiningsefni eins og dóminn sem ég var að vitna í áðan þar sem verk Guðmundar Inga voru dæmd ógild, að það er þá búið að fara þessa leið og það er einhver ágreiningur í málinu. En þarna, er þetta gert með svo augljósum tilgangi og þannig framferði að ég á mjög erfitt með að sætta mig við það og ætti mjög erfitt með að taka þátt í því að verja ráðherra vantrausti sem að stigi þannig fram.“
„En þú útilokar það ekki?“ spurði þá stjórnandinn, Stefán Einar Stefánsson.
„Nei, ég bara segi það. Ég mun ekki gera það. Ráðherra sem er í þessari stöðu í máli sem hefur fengið þessa afgreiðslu á sjálfur að stíga til hliðar.“
Snorri Másson tók þá stjórnina af Stefáni og spurði Jón:
„En ef þú verð hana ekki vantrausti. Muntu sætta þig við að aðrir flokksmenn muni verja hana vantrausti?“
Jón svaraði:
„Það verður bara að koma í ljós. Það er auðvitað í mörg horn að líta núna þegar við hugsum til þessara 18 mánaða sem eru eftir af þessu kjörtímabili. Og ég fór ágætlega hér yfir valkostina sem við stöndum hér frammi fyrir. Heiða segir hér að það vilji nú enginn flokkur, annar en VG vinna með Framsókn og Sjálfstæðismönnum, nú þá er bara það augljósa sem ég sagði áðan. Þá boðum við bara þjóðina til alþingiskosninga.“