Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Jón Sigurður fjallar um Melínu Merkúrí í þætti kvöldsins: Endurfæðist þegar Bretar skila marmaranum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einsog fram hefur komið í fréttum virðast viðræður komnar á rekspöl milli yfirmanna Breska Þjóðminjasafnsins, British Museum, og grískra yfirvalda varðandi marmaraskúlptúra þá sem Bretar tóku ófrjálsri hendi á Akrapólishæðinni í Aþenu fyrir rúmum tvö hundruð árum. Grikkir hafa verið ötulir við að núa beiðni sinni um nasir Breta um að endurheimta minjar sínar en líklegast hefur engin gengið jafn hart fram í þeirri baráttu og Melína Merkúri en hún var menningarmálaráðherra Grikkja nánast allan tíunda áratug síðustu aldar og svo aftur árið 1993 og til dauðadags, ári seinna. Þekktust er hún þó fyrir feril sinn sem leikkona en hún lék til að mynda í myndinni Aldrei á sunnudögum, þar sem hún fór með hlutverk grískrar gleðikonu, og þar söng hún lagið Börnin frá Pírea sem einnig náði heimsfrægð. Málefni skúlptúranna, sem áður prýddu Parþenonhofið og aðrar byggingar á Akrapólíshæðinni, var svo mikilvægt í hennar huga að hún sagði að ef hún myndi ekki upplifa þá stund, er Bretar skiluðu þeim, myndi hún endurfæðast til að lifa þá dýrðarstund. Ef til vill er sú stund að renna upp. Allavega hljóta margir að hugsa til hennar nú og þess framlags sem hún reiddi af hendi.

Deilan hófst árið 1801 þegar breskur jarl, Thomas Bruce að nafni, lét flytja marmaraskúlptúrana og kvaðst þá hafa til þess pappíra uppá vasann frá yfirvöldum sem þá voru Ottomansveldið. Eftir að deilan komst í hámæli var gerð ítarlega leit í tyrkneskum skjalasöfnum en leyfisveitingin, sem hann kvaðst hafa haft árritaða undir höndum, hefur aldrei komist í leitirnar. Flutningurinn gekk heldur betur brösuglega en skipið sökk við strendur grísku eyjunnar Kerkíra og tók það um þrjú ár að ná gersemunum upp úr djúpunum. Bresk yfirvöld keyptu þær svo árið 1816 og var kaupverðið langt undir þeim kostnaði sem jarlinn þurfti að reiða fram til að koma þeim til Bretlands. 

Málið varð strax umdeilt og sá er barðist hve harðast gegn þessu á sínum tíma var skáldið Lord Byron en hann taldi þetta hrein og bein skemmdarverk. Melína var ekki síðri baráttumanneskja í sinni ráðherratíð og vakti það heimsathygli þegar hún króaði David Wilson, þjóðminjavörð Breta, af á ráðstefnu í Lundúnum og spurði hann hikstalaust, frammi fyrir fjölda fjölmiðlafólks, hvenær hann hygðist skila Elgin mararanum, einsog skúlptúrar þessir eru oftast nefndir. Síðan var tekist á og þótti þeim siðprúðustu óljúft að sjá þetta háttsetta fólk takast á einsog smákrakkar á skólavelli.

Lord Byron

Oft hafa átt sér stað þreifingar og síðast bauðst UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, til að miðla málum en yfirmenn Breska Þjóðminjasafnsins voru ekki sáttir við það enda telja þeir stofnunina draga taum Grikkja.

Þess má geta að minjar þessar eru verk sjálfs Feidíasar en hann er oftast nefndur merkasti myndhöggvari fornaldar.   

Í þættinum Rúntað með Rucio fjallar Jón Sigurður um merkiskonuna Melínu Merkúri og kemur þar meðal annars inná deilu hennar við David Wilson. Þátturinn mun birtast upp úr klukkan 19:00 hér á mannlif.is. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -