Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir íslenskt samfélag á kolrangri braut þegar kemur að stefnu í vímuefnamálum. Sú bannstefna sem verið hefur við lífið hafi valdið meiri skaða en hún hafi skilað og nú sé kominn tími til að lögleiða öll vímuefni hér á landi.
Jón Steinar lýsti þessu yfir í spjalli í Íslandi í dag og til að undirstrika skoðun sína ritaði hann aðsenda grein í Morgunblaðið. Honum finnst einfaldlega að gefa eigi það frjálst hvaða vímuefna menn neyta.
„Ég fullyrði að við fáum betra og viðfelldnara samfélag út úr þessu heldur en þessu lögregluríki sem við erum að reyna að beita á neyslu annarra efna heldur en áfengis. Og við eigum bara að höggva á hnútinn. Ég held að það séu æ fleiri sem eru að átta sig á að við erum á algerlega rangri braut með þetta,“ segir Jón Steinar og heldur áfram:
„Ég, verjandinn, og ákærandinn förum inn í réttarsal og flytjum málin og förum svo saman á barinn á eftir. Og fáum okkur áfengi. Þetta er auðvitað tvískinnungur sem á ekki að vera boðlegur í neinu samfélagi. Ég hef hugmynd um það hvers vegna svona margir taka þessa afstöðu. Það er vegna þess að þeir hafa ákveðna nautn af áfengisneyslu og finnst þeir réttlæta gjörðir sínar í því efni með því að vera á móti öðrum vímugjöfum. Þeir segja: Sjáðu, ég er svo góður. Ég nota bara áfengi og ég er á móti hinu. En þetta er auðvitað í eðli sínu það sama. Hvort sem þetta heitir áfengi eða eitthvað annað, þá er þetta auðvitað bara efni sem menn taka inn til þess að komast í vímu.“