Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sendi Knattspyrnusambandi Íslands stóra pillu varðandi þær reglur sem sambandið setur leikmönnum. Jóni finnst KSÍ beita ósanngjarnri valdbeitingu en undanfarin ár hafa nokkrir íslenskir leikmenn ekki mátt spila með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu sökum þess að þeir hafa verið kærðir fyrir kynferðisbrot.
„Það er alveg forkastanleg framkoma Knattspyrnusambands Íslands við þá knattspyrnumenn sem hafa verið hafðir fyrir sökum um kynferðisbrot en þeir andmæla og ekki hafa verið sönnuð. Sambandið setur þá sem svona stendur á um í bann við að taka þátt í kappleikjum á vegum þess,“ skrifar dómarinn á samfélagsmiðlinum Facebook.
„Hvaðan kemur þessu sambandi heimild til að sakfella þá sem svona stendur á um? Þessi framkvæmd er auðvitað mjög íþyngjandi fyrir þá knattspyrnumenn sem hlut eiga að máli bæði gagnvart almenningi og stundum jafnvel í starfi sem atvinnumenn í knattspyrnu. Er ekki unnt að bíða með að beita þá viðurlögum þar til rétt yfirvöld í landinu hafa leyst úr máli þeirra á þann veg að sökin teljist sönnuð? Kannski búið sé að fá andstæðingum íslenska landsliðsins vopn í hendur til að hindra þessa pilta í þátttöku í kappleikjum gegn þeim?“ en rétt er að halda því til haga að KSÍ hefur ekki sakfellt neinn í þessu samhengi né haldið því fram að sambandið hafi slíka heimild. KSÍ eru eins og hver önnur samtök og ætti því að vera frjálst að setja reglur um innri starfsemi að því gefnu að þau brjóti landslög.