Lögregla var kölluð út í gærkvöldi vegna umferðarslyss. Slysið átti sér stað á gatnamótum Kringlumýrabrautar og Sæbrautar en þar hafði bifreið verið ekið á ljósastaur með þeim afleiðingum að hann féll niður á aðra bifreið. Minniháttar slys urðu á fólki við áreksturinn.
Síðar um kvöldið var lögregla kölluð til í hverfi 103. Þar hafði maður pantað sér veitingar og neitað að greiða fyrir þær. Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af karlmanni í miðborginni en sá hafði látið illa og hótað fólki. Maðurinn var að lokum handtekinn. Lögregla sinnti einnig reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði þrjá ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum vímuefna.