- Auglýsing -
Karen Kjartansdóttir stjórnendaráðgjafi bendir á tölulegar staðreyndir þegar kemur að meintu „útlendingavandamáli“ sem flokkar á borð við Miðflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna hafa talað um í aðdraganda þingkosninga.
Bendir Karen, sem að undanförnu hefur verið dugleg að taka upp hanskann fyrir hælisleitendur og innflytjendur hér á landi, á að atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á Íslandi, sé hærri en hjá innfæddum Íslendingum.
„Hvert er útlendingavandamálið? Part II
Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur) fá varanlegt dvalarleyfi á Íslandi fá þeir leyfi til að vinna, fá íslenska kennitölu og teljast til erlendra ríkisborgara í tölum Hagstofunnar. Þjónustan við þá fellur niður og þar með kostnaður hins opinbera.
Samkvæmt nýrri úttekt OECD (sept. 2024) er atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara á Íslandi sú hæsta meðal OECD-ríkja – hærri en hjá innfæddum Íslendingum!
„Greining frá Samtökum atvinnulífsins (2019) sýndi t.d. að atvinnuþátttaka erlendra ríkisborgara var 94% í aldurshópnum 20-59 ára, á meðan hún var 79% hjá íslenskum – öflugur þáttur í uppbyggingu samfélagsins.
Og það yrðu nú einhverjar búsifjarnar í íslensku atvinnulífi og velferðarkerfi ef allt erlent vinnuafl yrði hér gert brottrækt eða því fækkað mikið.
Er ekki spurningin sem við þurfum að spyrja okkur; hvernig gerum við þetta vel?