Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóra vera gungu fyrir að neita að spila ólöglega útsetningu á íslenska þjóðsöngnum í Ríkisútvarpinu. Kári segir þessa útsetningu runna undan hans rifjum. Allt þetta kemur fram í aðsendri grein hans í Fréttablaðinu þar sem hann lætur Stefán og RÚV hafa það óþvegið.
Kári segir þessa vafasömu útsetningu vera eftir Þorstein Einarsson gítarleikara og Eyþór Gunnarsson píanista. Hana má hlusta á hér. Kári segist þó hafa óskað eftir laginu, og því nokkurs konar höfuðpaur málsins. Hann segir verkið innblásið af sambærilegum útsetningum bæði Stravinsky og Jimmy Hendrix. Hann lýsir aðdraganda þess svo:
„Það var svo um daginn að ég bað Þorstein Einarsson gítarleikara og Eyþór Gunnarsson píanista að spila íslenska þjóðsönginn á þann máta að hann ætti erindi inn í þau augnablik sem eru að líða akkúrat núna. Þeir fóru létt með það og tóku upp magnaða útgáfu sem er full af tilbrigðum sem verða einungis túlkuð sem gagnrýni á afskiptaleysi íslensks samfélags gagnvart næstum öllu sem skiptir máli, kjörum þeirra sem minnst mega sín, barnafátækt, græðgi þeirra sem mest eiga og takmarkalausum yfirgangi útgerðarglæponanna.“
Kári segist hafa hringt í Stefán útvarpsstjóra til að gauka laginu að honum. „Ekki fór á milli mála að það var skylda mín að koma flutningi tvímenninganna á framfæri og ég hringdi í Stefán nafna þinn Eiríksson útvarpsstjóra og lagði til að hann léti spila þetta sem síðasta lag fyrir fréttir á 17. júní. Ég sendi honum upptökuna og hann sagðist ætla að skoða málið.“
Svo komu smáskilaboð frá Stefáni, en rétt er að geta þess að hann var áður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu: „Stöldrum strax við 3. gr. Laga um þjóðsönginn, þar sem segir að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Setur okkur augljóslega skorður. Bkv. SE“.
Kári segir þessa afstöðu lýsandi fyrir hvernig komið er fyrir Ríkisútvarpinu. „Stjórnvöld eru búin að brjóta Ríkisútvarpið niður að innan með því að fela stjórn stofnunarinnar fólki sem lítur á hana sem vandamál þeirra sem vilja græða peninga á fjölmiðlum, frekar en þann samnefnara þjóðarinnar sem hún var um áratugi. Þess vegna verður þjóðin að hlusta á þessa snilldarútsetningu á þjóðsöngnum alls staðar annars staðar en í Ríkisútvarpinu, eins og YouTube og á einkareknum útvarps- og sjónvarpsstöðum. Ég reikna með því að þú skiljir að með því erum við ekki að halda fram hjá Ríkisútvarpinu vegna þess að maður getur ekki haldið fram hjá þeim sem vill mann ekki.“
Að lokum segir Kári þá Þorstein og Eyþór best geymda á réttargeðdeild, enda glæpamenn. „En síðan hitt, það er engin spurning að Þorsteinn og Eyþór brutu lög og eru þess vegna glæpamenn. Það sem meira er, ég get borið vitni um að þeir iðrast einskis. Hið eina sem á eftir að gera er að ákveða refsinguna en eitt er víst að það kemur ekki til greina að láta mennina ganga lausa og fremja alls konar ólöglega tónlistargjörninga. Ég hvet þá sem ákveða refsinguna að hafa eftirfarandi í huga: Búið er að sýna fram á að það eru sterk tengsl milli sköpunargáfu og geðveiki. Félagarnir tveir, Þorsteinn og Eyþór, eru snillingar að springa úr sköpunarmætti og eiga þess vegna ekki heima á Litla Hrauni heldur á réttargeðdeild.“