Föstudagur 27. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Karl Ágúst minnist látins vinar: „Ég kveð þig döprum augum, en með hlýju í hjarta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikarinn ástsæli, Karl Ágúst Úlfsson skrifaði í kvöld afar fallega færslu á Facebook til minningar um kæran vin hans, Guðmund Ásmundsson sem lést nýverið.

Eins og við var að búast af Karli Ágústi er færslan afar vel skrifuð og falleg. Gaf hann Mannlífi góðfúslegt leyfi til að birta færsluna í heild sinni:

„Elsku Gummi. Nú eru nákvæmlega þrjátíu ár frá því við hittumst fyrst. Og í dag varð ég að kveðja þig í síðasta sinn. Samt ekki minninguna um þig – hana kveð ég aldrei.

Við tókumst í hendur í fyrsta sinn í vínbúðinni í Aþenu, Ohio. Ég og fjölskylda mín vorum nýja fólkið í bænum, komin til að hefja nám bæði við háskólann og grunnskólann, en þar voru nokkrir Íslendingar fyrir. Við gengum inn í þennan hóp og nutum góðs af reynslunni og þekkingunni sem þar hafði safnast upp, gátum alltaf leitað ráða og leiðbeininga í þessu nýja umhverfi sem við þekktum varla nema af afspurn. Þar reyndist þú aldeilis haukur í horni – og við urðum vinir.

Reyndar var varla hægt að umgangast þig, Gummi, án þess að tengjast þér vináttuböndum. Þú varst skemmtilegur, glaðvær, glöggur, greiðvikinn – og traustur. Já, alltaf varstu traustur og viljugur að leysa allan vanda sem upp gat komið.
Það var ómetanlegt að kynnast þessum hópi íslenskra námsmanna og fjölskyldum þeirra. Minningarnar um allt það samkrull vekja ennþá bros, jafnvel skellihlátra og stöku tár. Og alltaf ertu þú framarlega á öllum þeim myndum sem hugurinn framkallar, þú og Helga og Hildur, sem þá var bara pínulítið spons og uppáhald allra. Þessar minningar herja á mig í dag, hvort sem um er að ræða grillveislur, spilakvöld, samkvæmisleiki eða sögur – já, endalausar sögur, skemmtilegar og jafnvel grátbroslegar af skakkaföllum nákominna ættingja á leið í heimsóknir á þennan afskekkta og lítt þekkta heimabæ okkar á miðjum kornakri í miðjum Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Ó, já, það var mikið hlegið. Og nú sit ég hér og er ekki hlátur í hug. Það er sárt að þurfa að kveðja alltof snemma. Líklega eru það einungis góðar minningar sem geta hjálpað manni á slíkum stundum. Hér er ein, elsku Gummi, ein sem ég held mikið uppá og skrifa nú mér til hjálpar.
Við héldum stundum spilakvöld, þar sem við bjuggum hlið við hlið í Myllustræti. Þessi minning er um pókerkvöld heima hjá mér, þar sem Íslendingaklíkan kom saman til að spila. Þegar við höfðum spilað nokkra hringi kom í ljós að bjórbigðir heimilisins voru á þrotum, svo það varð úr að tveir af spilamönnum voru sendir út í hverfisbúðina til að afla fanga. Þegar þeir voru farnir stakk Gummi uppá hrekk, sem við hin féllum fyrir og hrintum í framkvæmd. Þegar sendimennirnir komu aftur var gefið í nýtt spil. Þá vildi svo makalaust til að þeir fengu báðir fullt hús upp í hendurnar. Þessir tveir voru alveg örugglega mestu keppnismennirnir í hópnum og þó að allir rembdust við að halda í sitt pókerfés tókst hrekklausum bjórburðarmönnum ekki með góðu móti að leyna því að nú væri eitthvað stórt í aðsigi. Ástæðan fyrir þessari ótrúlegu heppni félaga okkar var vitaskuld sú að Gummi hafði raðað rétt í spilastokkinn á meðan þeir voru fjarverandi, svo þeir gátu ekki annað en fengið fullt hús. Aðrir spilarar tóku að pakka hver á fætur öðrum, enda allir með hunda á hendi, og að lokum voru þeir sem höfðu húsfylli einir eftir. Og hvorugur vildi gefa sig, svo potturinn hækkaði og hækkaði, það var dobblað og dobblað og dobblað enn og aftur. Við sem sátum hjá þurftum að bíta okkur í kinnarnar, nudda á okkur augabrúnir, jafnvel reita á okkur hnakkahárin til að springa ekki úr hlátri og þegar potturinn var sprunginn og hrekkurinn afhjúpaður varð hláturinn í íbúðinni svo hávær að hann rúmaðist varla innan fjögurra veggja og sumir urðu að ganga út á tún og emja þar.
Elsku Gummi. Ég þakka þér fyrir vináttuna, fyrir þetta þétta handtak í vínbúðinni um árið, fyrir gleðina og fyrir þær góðu og skemmtilegu minningar sem ég á um þig og samskipti okkar. Ég kveð þig döprum augum, en með hlýju í hjarta og ljós í höfðinu sem allt það fallega sem ég man um þig hefur gefið mér. Farðu vel, bróðir og vinur.

Elsku Helga, Hildur og Ásgrímur – og þið hin sem þekktuð Gumma og elskuðuð – hjartans samúð og kærleikur til ykkar allra.“

Mannlíf sendir samúðarkveðjur til Karls Ágústar og aðstandenda Guðmundar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -