Karl Ágúst Úlfsson minntist Lilju Guðrúnar Þorvaldsdóttur á Facebook en hún lést á dögunum.
Leikarinn góðkunni, Karl Ágúst Úlfsson skrifaði falleg minningarorð á Facebook í gær en þar minntist hann leikkonunnar ástsælu, Lilju Guðrúnar Þorvaldsdóttur sem í fyrri hluta nóvember.
Í byrjun segir hann frá því að þau hafi verið á sama tíma í Leiklistarskóla Íslands en hann hafi þá verið að byrja en hún að ljúka náminu. „Ég man hvað mörgum af eldri nemendunum fannst við byrjendurnir vitlausir og vanþroska, en Lilja Guðrún talaði við okkur sem jafningja og það voru góð samtöl og ekki síður skemmtileg, því hún átti svo sannan og glaðværan hlátur og hlusaði af svo jákvæðri athygli. Þannig man ég hana.“
Þau Karl Ágúst og Lilja unnu svo saman af og til að sögn Karls en hann rifjar upp þegar hann fékk sitt fyrsta stóra leikstjórnarstarfið en það var í Útvarpsleikhúsinu en þar réði hann Lilju Guðrúnu í hlutverk kærustu vonda karlsins í verkinu. „Hún skilaði því af svo mikilli snilld að ég gat þóst vera sæmilegur leikstjóri. Hún lék líka í sýningu okkar Spaugstofumanna Örfá sæti laus og þar var óneitanlega einstök gamanleikkona á ferð.“
Því næst rifjar Karl Ágúst upp leikrit hans Í hvítu myrkri en Lilja lék eitt aðalhlutverkið. „Lilja lék konuna sem neyddist til þess í vondu veðri að gista eina nótt í sjávarþorpinu og hleypti öllu óvart í bál og brand. Þetta leikrit var mér tilfinningalega erfitt og í því voru faldar tengingar við sára atburði í lífi mínu, en ég lét hvorki leikstjórann né aðra sem unnu að sýningunni vita af þessu. Einn daginn þegar ég gekk út af æfingu kallaði Lilja á eftir mér og bað mig að eiga við sig orð. Úti á bílastæði Þjóðleikhússins spurði hún mig síðan tveggja eða þriggja einfaldra spurninga. Þegar ég svaraði af heiðarleika brosti hún út að eyrum, breiddi út fangið og sagði „Ég vissi að þetta leikrit fjallaði um þig“.“
Síðustu orð Karls Ágústar í minningarfærslunni eru falleg: „Vertu sæl, elsku Lilja mín, þakka þér fyrir allt það góða og ánægjulega sem við höfum gert saman, sagt saman, hlegið að saman. Ég á endalaust eftir að minnast þín af hlýju og gleði, oft bæði með bros á vör og tár í augum.