Lögregla var kölluð út í gærkvöldi vegna bílveltu. Fjórir menn voru í bílnum og allir komust út án aðstoðar. Sem betur fer slasaðist enginn alvarlega en einn mannanna hlaut minniháttar áverka. Síðar um kvöldið hafði lögregla afskipti af krökkum sem höfðu brotist inn í skóla en eru þeir einnig grunaðir um skemmdarverk. Málið var tilkynnt til barnaverndar þar sem krakkarnir eru yngri en 18 ára. Einn maður var handtekinn vegna brots á nálgunarbanni og gistir nú í fangaklefa.
Þá stöðvaði lögregla níu ökumenn á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Tveir þeirra reyndust vera án ökuréttinda. Lögregla þurfti í tvígang að hafa afskipti af manni sem var að reyna að brjótast inn í bíla. Í seinna skiptið leitaði lögregla á manninum en að því loknu var hann frjáls ferða sinna.