Lögregla var kölluð út á menntaskólaball skömmu eftir miðnætti í gærkvöld. Þar hafði nemandi neytt áfengis og var orðinn ölvaður. Hann átti í erfiðleikum með að hafa stjórn á tilfinningum sínum og hafði ógnað öðrum nemendum á ballinu. Forráðamaður sótti drenginn og hafði lögregla ekki frekari afskipti af honum.
Síðar um nóttina hafði eigandi fyrirtækis samband við lögreglu og tilkynnti um yfirstandandi innbrot í fyrirtækinu. Þegar lögregla mætti á vettvang voru greinileg ummerki um innbrot en ekki liggur fyrir hvort einhverju hafði verið stolið. Þá sinnti lögregla reglubundnu eftirliti í borginni og ók meðal annars fram á mann sem barði æstur í bifreiðar og klifraði upp á þær. Maðurinn skemmdi tvær bifreiðar í reiðiskastinu en var hann að lokum handtekin og vistaður í fangaklefa. Beðið verður til morguns með að ræða við manninn þar sem hann var óviðræðuhæfur.