Ekki verða gefnir út fleiri þætti af Karlmennskuhlaðvarpinu sem kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson hefur haldið úti en eldri þættir munu ekki hverfa af hlaðvarpsveitum. Greint er frá þessu á samfélagsmiðlasíðu þáttarins.
„Það hefur verið afskaplega gaman að hitta og spjalla við svo margt frótt fólk með áhugaverða reynslu eða sjónarhorn á samfélagið. Markmiðið var alltaf að varpa ljósi á virkni feðraveldis í gegnum mismunandi birtingarmyndir, sem höfðu einhvern snertiflöt við karla eða karlmennsku. Veit að það tókst oft vel upp. Og það gleður mig að vita að ennþá eru nokkur hundruð einstaklingar að hlusta á gamla þætti,“ stendur í færslu Þorsteins um ákvörðun sína.
„Það var greinilega ekki mjög sexý söluvara fyrir fyrirtæki að tengja sig femínísku hlaðvarpi. Þrátt fyrir þrjú til sex þúsund hlustanir á hvern þátt og snertingu við um 30 þúsund á þessum miðli þóttu yfir 100 fyrirtækjum, sem þá höfðu varið fjármagni í hlaðvörp og „áhrifavalda“, ekki nógu safe að tengjast Karlmennskunni. Þau völdu frekar að tengjast einhverjum sem fjalla um fótbolta, fíkniefni, grín og glens – eitthvað „hlutlaust“.“
Hlaðvarpið og Þorsteinn hefur í gegnum tíðina þótt umdeilt en aðdáendur þess hafa sagt Þorstein vera opna á nauðsynlega umræðu um eitraða karlmennsku og jafnrétti meðan þeir sem kunna minna að meta hlaðvarpið hafa sagt það stuðla að neikvæðri umræðu um karlmenn án þess að eiga endilega rétt á sér í öllum tilfellum.