Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ekki tilefni til þess að fjármálaráðherra víki vegna sölunnar á Íslandsbanka. RÚV greinir frá þessu. Katrín segist vilja bíða niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, sem er með málið í rannsókn.
„Það er okkar mat að það hafi sýnt sig, í gegnum þessa nýjustu atburði, að þetta fyrirkomulag krefjist endurskoðunar,“ segir Katrín í samtali við RÚV, um tillögu ríkisstjórnarinnar um að Bankasýslan skuli lögð niður.
Þegar spurt er hvort þarna sé ekki verið að kasta Bankasýslunni undir rútuna þegar málið sé í raun þess eðlis að ríkisstjórnin eigi sjálf að bera ábyrgð á því, segir Katrín að fyrst þurfi að horfa á löggjöfina utan um ferlið. Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans fari nú með rannsókn á sölunni „og ég held að við þurfum að bíða og sjá hvað kemur út úr þeim rannsóknum áður en við tökum ákvörðun um næstu skref.“
Katrín ítrekar að það sé Bankasýslan sem fari með framkvæmd málsins. Hún segir okkur enn eiga eftir að sjá hverjar niðurstöðurnar komi til með að verða frá þeim sem fari með rannsókn málsins. Henni sýnist þó atriðin sem séu gagnrýniverð snúa að framkvæmd sölunnar.
Katrín segir jafnframt að ekki sé um að ræða tilefni til stjórnarslita. „Þannig að ég held að við þurfum að bíða og sjá hverju þessi rannsókn skilar, en framkvæmdin liggur hjá Bankasýslunni.“