Gauti Eiríksson, kennari við Álftanesskóla segist ekki ætla að láta bjóða sér „meiri þvælu“.
Kennarar eru í áfalli eftir að Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði innanhústillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í kennaradeilunni. Einn þeirra, Gauti Eiríksson, kennari við Álftanesskóla, birti í gær myndskeið á Facebook þar sem hann segist ekki ætla að láta bjóða sér „meiri þvælu“.
„Hvað gerir maður á degi eins og í dag þegar kennarar fá þau skilaboð að þeir megi bara éta það sem úti frýs?“ Á þessum orðum hefst myndskeið Gauta en hann heldur áfram:
„Ég get sagt ykkur hvað ég gerði. Ég fór í tölvuna og fór að kíkja aðeins á starfsferilinn minn. Hann lítur bara ágætlega út. Ég hef starfað sem kennari vel yfir 20 ár, verið 20 ár í sama skólanum sem er ákveðinn festa. Hef komið að alls konar þróunarverkefnum á þeim tíma og leitt mörg þeirra, byggt til dæmis upp safn myndbanda sem eru þekkt út um allt land. Ég hef líka starfað við mörg önnur störf, því þann tíma sem ég hef starfað sem kennari hefur aldrei verið hægt að lifa eingöngu á kennaralaunum. Þannig að ég hef unnið við fullorðinsfræðslu, ég hef verið rútubílstjóri, búið til námskeið, ég er leiðsögumaður til rúmlega tuttugu ára, ég hef alls konar reynslu. Þannig að ef að þetta verður til þess að ég verði að leita mér að öðrum starfsvettvangi, því ég hef ákveðið að láta ekki bjóða mér mikið meiri þvælu, þá er ég ekkert hræddur við að sækja um aðra vinnu. Ég bjarga mér alltaf og hef alltaf gert.“
Gauti, sem tilnefndur var sem maður ársins 2024, segir Ísland vera komið á vondan stað.
„Það sem ég hef áhyggjur af eru skólarnir. Fólk á Íslandi þarf að átta sig á því að við erum komin á mjög vondan stað. Þetta snýst ekki um það hvort kennarar séu í svona og svona löngu fríi eða vinni svona eða svona vinnudag. Þetta snýst um: Erum við með fagfólk í skólunum okkar eða ekki? Það virðist vera draumur einhverja að losna bara við kennarana svo hægt sé að borga fólki minna fyrir að kenna börnum og sé hægt að spara peninga. Ég ætla ekki að taka þátt í því. En hvað ætlið þið að gera? Þið getið haft samband við kjörna fulltrúa í ykkar sveitarfélagi. Og eru þau með í þessu? Bara fáið að vita það. Ég ætla að minnsta kosti ekki að láta bjóða mér mikið meira.“