Dauð lömb liggja eins og hráviði í Þverárhlíð í Borgarfirði og kindurnar sem báru þau komnar með júgurbólgur.
Steinunn Árnadóttir baráttukona, sendi sveitartstjóra og sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf þar sem hún bað um að kindunum og lömbunum í Þverárhlíð verði sinnt, „svo sómi sé að sauðfjárrækt í Borgarfirði.“ Mannlíf hefur bréfið undir höndum.
Steinunn hefur verið dugleg að birta ljósmyndir af kindunum í Þverárhlíð sem hafa verið afskiptalaus í langan tíma og borið lömb undir berum himni, rándýrum til gleði.
Hér má lesa bréf Steinunnar:
„Ágæti sveitarstjóri og sveitarstjórn
Á ferð minni um Þverárhlíð seinnipart fimmtudags 2.maí sá ég kindur sem voru í miklu reiðileysi um alla sveit.
Um var að ræða óbornar kindur, nýbornar kindur og kindur sem stóðu yfir dauðu lömbunum sínum.
Ég vísa í samtal sem fréttamaður RUV átti við sveitarstjóra 26.apríl síðastliðinn. Þar kom fram að mikill metnaður er að landbúnaður sé til fyrirmyndar i Borgarbyggð.
Það getur ekki verið metnaður að sjá umkomulausa málleysingja við þjóðveginn eða um allar mögulegar hlíðar, tún og engjar, sumar í afleitu ástandi.
Óska ég eftir að þessum kindum og lömbum verði sinnt svo sómi sé að sauðfjárrækt í Borgarfirði.