Kjartan Hauksson var gestur Sjóarans á dögunum en hann hefur allt frá unglingsaldri starfað sem kafari. Í fyrstu fékkst hann aðallega við að losa net úr skrúfum fiskiskipa og fékk hann gjarnan greitt í vodkaflöskum en það gagnaðist honum lítið þar sem hann var ekki byrjaður að drekka á þeim tíma.
Árið 2003 lenti Kjartan í sjávarháska er hann hugðist róa fyrstu manna einsamall á árabáti í kringum Ísland. Var hann þá staddur við Rekavík á Hornströndum.
„Ég lendi í stífum norðanvind sem hrekur mig upp í Rekavík. Og ég set út anker þar svona til að hvíla mig svo ég geti nú haldið áfram að reyna að rembast upp í þetta veður,“ segir Kjartan er hann lýsir þeim háska sem hann lenti í fyrir tveimur áratugum síðan.
Þegar þarna var komið við sögu hafði Kjartan verið búinn að reyna að komast frá Rekavík en stífur vindurinn haldið honum þar sem fastast og hann orðinn þreyttur. En svo slitnaði ankerið. „Og ég fer undir árar og brýt strax aðra árina og tíminn sem fer í það að gera aðra klára er of mikill. Þannig að ég er kominn upp í brimið áður en ég vissi af. Þannig að þá var þetta bara búið spil.“
Árabátur Kjartans veltur og brotnar. „Já, já, það fer úr honum botninn og ég lendi undir honum og velkist inn í brimið, alveg upp í fjöru.“
Kjartans segir að það hafi brotnað ofan af bátnum, fjarskipabúnaður, loftnet og fleira. Brimið hafi verið það mikið að botninn hafi farið ansi fljótt úr honum.
Reynir Traustason spurði Kjartan hvort það hafi ekki verið basl að komast undan bátnum eftir að hann lenti undir honum. „Nei, þetta gerist tiltölulega fljótt og báturinn lítill en ég hefði auðvitað alveg getað orðið fyrir höfuðhöggi eða einhverju álíka en ég marðist og rispaðist og svoleiðis en ég slakk ótrúlega vel frá þessu í rauninni.“
Þarna var Kjartan sem sagt sambandslaus á Hornströndum með ónýtan bát, í fjörunni eftir að hafa velkst um í briminu. Hvað var til ráða? „Ég var að hugsa um að reyna að koma bátnum upp til að reyna að bjarga sem mestu af honum, ef það væri hægt að gera við hann. Ég náði honum ekkert upp í fjöru, hann var alltof þungur. Þannig að ég var farinn að hugsa til þess að labba yfir í Aðalvík og komast í fjarskiptabúnað þar í skýli.“
En Kjartan þurfti þess ekki því svo virðist sem mágur hans hafi fengið hugboð um að hann þyrfti hjálp. „Ég held að ég sé búinn að vera í tvo tíma að berjast í briminu þegar mágur minn Bergur Karlsson frá Bolungarvík kemur siglandi. Hann hefur fengið eitthvað hugboð um að það væri kannski ekki allt í lagi með mig og að hann þyrfti að athuga með mig. Og hann fór á hraðbát og fann mig þarna í briminu.“
Reynir spurði Kjartan hvort það hafi ekki verið léttir að sjá Berg, að hann þyrfti þá ekki að fara að klöngrast yfir fjallaskörð eftir hjálp. „Já, það var það. Það var gott að komast í skjól en við gátum ekkert átt við bátinn, hann varð bara að vera þarna í fjörunni og við ætluðum að kíkja á það seinna. En báturinn týndist síðan, hann hvarf bara þar til Sigursteinn Másson hringdi í mig, fjölmiðlamaður. Þá hafði Greenpeace fundið hann undan Norðurlandinu. Hann hafði þá losnað og farið út. Þannig að Grænfriðungarnir björguðu bátnum mínu,“ sagði Kjartan og brosti. Ekki var hægt að laga bátinn en Kjartan á flakið ennþá.
Nokkrum mánuðum síðar lenti Kjartan í öðrum sjávarháska …
Viðtalið í heild sinni má finna á tv.mannlif.is