Sjálfstæðisflokkurinn vill uppfæra laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands.
Kjartan Magnússon lagði fram tillögu á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær, fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, varðandi laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur. Áður hafði borgarstjórn ákveðið að halda laununum óbreyttum frá síðasta ári, þrátt fyrir verðbólgu í landinu. Lagði Kjartan til að tímalaunin verði uppfærð á milli ára í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands og hækki þannig um 9 prósent. Hækkunin verði fjármögnuð af lið 09205 „Ófyrirséð“ í gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar. Að ósk meirihlutans var afgreiðslu tillögunnar frestað.
Meðal þess sem Kjartan sagði á fundinum var eftirfarandi:
„Með slíkri launafrystingu eru laun aldurshópsins 13 til 16 ára, skert verulega þar sem verðbólga mælist nú mikil, á meðan allir aðrir kjarahópar hjá Reykjavíkurborg fá umtalsverðar kjarabætur,“ og átti þá við þá ákvörðun meirihlustans að greiða unglingunum sömu laun og í fyrra. Þá skaut hann fast á borgarstjórnina: „Svo virðist sem meirihluti borgarstjórnar telji sig þannig hafa fundið breiðu bökin, sem eigi að axla byrðarnar í baráttunni við verðbólguna.“
Þá benti hann á að launin í Vinnuskóla Reykjavíkur séu þau lang lægstu á höfuðborgarsvæðinu: „Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað launin í unglingavinnunni (vinnuskólanum) verulega á milli ára að Reykjavíkurborg undanskilinni. Reykjavíkurborg greiðir nú unglingum langlægstu launin. Tímalaun vinnuskóla flestra nágrannasveitarfélaganna eru nú 12% hærri en í Reykjavík og í Mosfellsbæ eru þau um 17% hærri.“
Að lokum sagði hann slíka launafrystingu ekki gott veganesti út í lífið. „Vinnuskólinn er fyrsta reynsla flestra unglinga af vinnumarkaðnum. Með slíkri launafrystingu sendir meirihluti borgarstjórnar þessum unglingum slæm skilaboð og sýnir mikilvægu vinnuframlagi þeirra í þágu Reykjavíkurborgar, óvirðingu.“